132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var svolítið kostuleg ræða. En þetta er nokkuð sem ég er búinn að segja margoft við þessa umræðu. Mér finnst svolítið kostulegt að hlusta á þessar ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir taka bakföll yfir þeirri yfirlýsingu frá mér að ég telji að þjóðin eigi vatnið á Íslandi, það eigi enginn einstaklingur vatnið, það sé þjóðin sem eigi vatnið. Þar með erum við að svara kalli tímans. Þetta eru menn að segja um allan heim. Þetta er grunntónninn í yfirlýsingum Sameinuðu þjóðanna, verkalýðssamtaka og almannasamtaka sem horfa upp á að í síauknum mæli er verið að gera drykkjarvatnið og neysluvatnið að verslunarvöru þar sem fyrirtæki og auðhringar eru að hagnast á sölu þess. Þetta er grundvallarbarátta sem er háð í heiminum. Á að skilgreina vatnið sem mannréttindi og almenningur, þjóðin, hafi þar með rétt til vatnsins eða á að líta á vatnið sem hverja aðra verslunarvöru? Út á þetta ganga þessi átök.

Ég er ánægður með það, hæstv. forseti, ef ég hef getað glatt hv. þingmann með því að lýsa þessu yfir. Ég skal gera það aftur og ítrekað ef þess er óskað en ég er búinn að segja þetta margoft við þessa umræðu.