132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að bjóða þingmenn Sjálfstæðisflokksins velkomna til þessarar umræðu. Það er gaman að heyra pínulítið í þeim við þessa mikilvægu umræðu og ég hef gaman af því að fylgjast með orðanotkun þeirra að við viljum þjóðnýta allt, þjóðnýta vatnið. Við viljum koma í veg fyrir að vatnið verði einkavætt og gert að verslunarvöru. Út á það gengur þessi deila. Það frumvarp sem við erum að ræða hér gengur út á að kveða skýrt á um eignarhald á vatni. Það segir í 1. gr. laganna að markmið þeirra sé skýrt eignarhald á vatni. Í 4. gr. segir að fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur og það er hægt að aðgreina fasteignina annars vegar og eignarréttinn yfir vatninu hins vegar, það segir annars staðar í þessum lögum. Og þegar hv. þingmaður höfðar til sögunnar og reynslunnar þá get ég sagt honum að í þeim löndum þar sem vatnið hefur verið einkavætt og þar sem fyrirtæki og auðhringar okra á almenningi og fyrirtækjum í skjóli einkaréttar á vatni þar vita menn mætavel hvað ég er að tala um. Þar þekkja menn staðreyndir málsins og þá mundu röksemdir, frammíköll og upphrópanir íhaldsmanna á Íslandi í þessari umræðu þykja hreint hlægilegar.