132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef nú fyrri ræðu mína um þetta mál sem hefur verið til umræðu undanfarna daga. Ég bjóst við að a.m.k. yrði rætt um það næstu viku, miðað við áherslur okkar stjórnarandstöðuþingmanna. Við teljum að full ástæða sé til að veita viðspyrnu varðandi þetta frumvarp til vatnalaga. Í framhaldi af því að samkomulag náðist um málsmeðferð síðla kvölds í gær munum við reyna að stytta mál okkar og nefna það helsta í málinu sem ágreiningurinn stendur um og kannski fyrst og fremst hið pólitíska.

Afgreiðsla þessa máls snýst um tvennt. Það er í fyrsta lagi pólitík og í öðru lagi lögfræðileg, tæknileg atriði sem eru þarna á bak við en liggja fremur inn í framtíðina og eru í raun ástæðan fyrir því að svo mikið liggur á að samþykkja frumvarpið, þ.e. lagatæknileg atriði sem snúa að eignum manna og þá sérstaklega austur á landi, í framhaldi af þeim stórvirkjunum sem þar eru í gangi. En við látum það liggja milli hluta í bili.

Vatnalögin sem nú gilda hafa verið í gildi frá 1923. Eins og hér hefur margoft komið fram hefur sú löggjöf staðist tímans tönn og í raun er ótrúlegt hve framsýnir menn hafa verið og hve vel þau lög hafa dugað. Þó kann að vera að kominn sé tími til að einfalda þann lagabálk þar sem vatnalög taka yfir alla þætti sem snúa að vatni og vatnsnýtingu, sem í dag eru komnir inn í fleiri lög. Ný vatnalög ættu því ekki að vera eins yfirgripsmikil og þau sem nú eru í gildi. Að hreinsa til í vatnalögunum og einfalda þau er tímabært.

Okkur greinir hins vegar á um hvort þörf sé á að breyta meginhugsuninni í vatnalögunum, um nýtingarrétt á vatni í 2. gr. núgildandi vatnalaga. En hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Í 2. gr. er pólitíkin í málinu. Þessari grein er búið að breyta í 4. gr. í frumvarpinu. Þar er hún svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur. “

Þarna er búið að breyta nýtingarrétti í eignarrétt. Í frumvarpinu er ekki lengur talað um landareign, eins og við höfum vanist og tungu minni er tamast, að tala um landareign og svo fasteign sem byggingar. En hér nær fasteign bæði yfir byggingar og önnur mannvirki á landareignum, t.d. bænda. Þarna kemur fram pólitísk sýn okkar í stjórn og stjórnarandstöðu til þessa máls. Stjórnarliðar segja: Þetta er engin breyting, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur margoft sagt. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa síðan tekið undir það. Þeir telja að hægt sé að samþykkja þetta frumvarp því þetta sé engin efnisbreyting og eingöngu formbreyting. En ég met það ekki svo að þetta sé eingöngu formbreyting. Þetta frumvarp getur í framtíðinni leitt af sér meira en svo að eingöngu sé hægt að tala um það sem formbreytingu.

Hæstv. forseti. Ég tel eins og fleiri ekki tímabært að lögfesta þetta frumvarp til vatnalaga og að samhliða hefði átt að vinna að vatnsvernd samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Hér hefur margoft verið bent á að jafnframt eigi að vinna að frumvarpi til laga um rannsóknir á jarðlægum auðlindum. Frávísunartillagan sem fylgir nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar stendur því enn, þrátt fyrir samkomulag sem hefur verið gert um vinnutilhögun á þingi. Efnisleg andstaða okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði stendur eftir sem áður óhögguð.

Það er rétt að í 1. gr. frumvarpsins koma markmiðin með því að breyta lögunum skýrt fram. Markmiðið er að styrkja eignarhaldsákvæðin. Það er gert á kostnað almannaréttar en markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og sjálfbær, hagkvæm nýting vatns. Þessi seinni hluti málsliðarins er svo, hæstv. forseti, ákaflega teygjanlegur og þyrfti að vera betur skilgreindur en kemur fram í lögunum. Það verður að bíða seinni tíma að fara yfir það.

Vísað hefur verið til þess að rétt sé að breyta núgildandi vatnalögum í þá mynd sem hér um ræðir með tilliti til dómahefðar, dóma sem fallið hafa á þessu rúmlega 80 ára tímabili, dóma sem hafa fallið á þann veg að talið er að eignarréttarákvæðin hafi styrkst. Nú er það svo, hæstv. forseti, að nýtingarrétturinn í núgildandi lögum er það sterkur hjá t.d. bændum, því að þeir hafa fram til þessa verið umsjónarmenn lands og jarðnæðis ásamt ríkinu með þjóðlendum. Þau mál eða þeir dómar sem fallið hafa tel ég, við getum kannski ekki kallað það smámál, en dómar í þannig málum hafa fallið þannig að nýtingarréttur viðkomandi hefur verið talinn jafngilda eignarrétti. Við höfum ekki staðið frammi fyrir málum af þeim toga sem við eigum í vændum, þegar framkvæmdir sem ráðist er í eru það inngripsmiklar og það stórar í sniðum að virkilega fari að reyna á nýtingar- eða eignarréttinn.

Þeim málum sem dæmt hefur verið í er ekki hægt að líkja við þau mál sem búast má við í framtíðinni, ef áfram verður staðið í stórframkvæmdum eins og verið hafa. Dómahefðin byggir á hverjum dómnum á fætur öðrum sem hefur inni í dómskerfinu styrkt eignarréttarákvæðin í dómahefðinni. Það hefur ekki breytt því að eftir sem áður, sem hefur alla tíð verið, er nýtingarréttur hvers landeiganda er sterkur. Hann hefur jafngilt eignarrétti í þeim dómum sem fallið hafa þótt ekki hafi verið í jafnstórum málum og fram undan eru. En það er mikill munur á því að vera rétthafi eða hafa nýtingarrétt og eiga rétt á bótum eða vera eigandi og eiga rétt á miklu hærri kröfum, þ.e. sé gert eignarnám eða réttindin keypt upp. Það yrði ekki greitt með bótum eins og gert er í dag heldur verður réttur bóndans eða landeigandans miklu meiri og eðli hans breytist.

Hæstv. forseti. Það hefur mikið verið vitnað til sérfræðiálita. Þau liggja m.a. frammi hjá álitum lögfræðinga á eignarréttarsviði. Ég tel að stjórnarliðar eða stjórnarþingmenn hafi vísað til sérfræðinga á allt of þröngu sviði. Þetta snýst um miklu meira en bara eignarréttinn. Það þarf að horfa til víðari þátta eins og almenningsréttar, umhverfisréttar og fleira. Í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar eru fjölmargar umsagnir sem ég veit að er búið að fara yfir og þarf því ekki að gera það núna. Þar kemur einmitt fram allt önnur sýn á þessi mál. Ég tel því ekki rétt að vísa eingöngu til lögfræðinga varðandi eignarréttinn. Ég tel líka rangt að þó að dómahefð hafi þróast í einhvern tíma í þá átt sem verið hefur þá eigi það að þýða að það verði að breyta grundvallarhugsun. Þetta er bara þannig. Það er alveg skýrt.

Annan þátt í frumvarpinu tel ég mjög ámælisverðan og hefur hann verið gagnrýndur mjög í umsögnum, þ.e. valdsvið Orkustofnunar sem er orðið mjög víðfeðmt. Það er alveg greinilegt að ef þetta verður að lögum þá er Orkustofnun ætlað hlutverk sem í dag fer langt út fyrir verksvið stofnunarinnar og í raun skarast á verksvið annarra stofnana, t.d. Umhverfisstofnunar. Ég tel að frumvarpið sé unnið þannig að nýtingarsjónarmið séu ofar verndarsjónarmiðum.

Nýtingarrétturinn í gildandi lögum er sterkur. Landeigendur fá bætur ef þeir verða fyrir skaða. En ef breytt er yfir í eignarrétt, eins og ég sagði, þarf að fara fram eignarnám sem verður að verðgildi hærra og meira en ef greiddar væru bætur. Einnig munu eignarákvæðin hafa áhrif á verðmæti lands og sölu eigna.

Hæstv. forseti. Mér finnst að við getum horft á þetta frumvarp eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði þegar hún líkti frumvarpinu við fiskveiðistjórnarkerfið okkar. Vatn er auðlind. Það held ég að við séum öll sammála um í hvaða flokki sem við erum og ég held að flest okkar átti sig á því að nú er talað um vatn sem olíu tuttugustu og fyrstu aldar. Vatnið verður verðmætara eftir því sem tíminn líður og verður að öllum líkindum sú auðlind sem verður dýrmætari en olían hefur nokkurn tíma verið því það er mannréttindi og okkur öllum nauðsynlegt. Við lítum á hafið umhverfis landið og fiskstofnana sem auðlind. Við erum öll sammála um það. Við höfum sagt að hafið og fiskstofnarnir eigi að vera sameign þjóðarinnar. Það tel ég að vatnið eigi að vera líka nákvæmlega eins og hafið og þær auðlindir sem í því eru. Síðan kemur að því hvernig við ætlum að nýta þessa auðlind. Til að byrja með nýttum við auðlindina í kringum landið eftir því sem við höfðum tækifæri til, þ.e. með bátaflotanum og þáverandi tækni til veiða. Róið var þegar gaf til veiða. Þegar bátar stækkuðu var hægt að sækja meira sjóinn og menn áttuðu sig á því að fiskurinn var ekki ótæmandi auðlind þannig að nauðsynlegt var að reisa einhverjar skorður. Það var gert með því að úthluta kvóta í sameiginlega auðlind.

Síðan var lögum breytt þannig að hægt var að framselja kvótann í þessa sameiginlegu auðlind sem hver og einn hafði og selja og kaupa þessa sameiginlegu auðlind. Það er sem sé kominn eignarréttur á kvóta. Farin eru að tíðkast uppkaup á kvóta og uppkaup á auðlindinni. Ég tel þá þróun slæma sem við höfum horft upp á í fiskveiðistjórn hér við landið. Sameiginleg auðlind hefur færst á færri og færri hendur. Ákveðnir menn eiga orðið fiskinn í sjónum eða hafa selt kvóta sinn og þurfa því ekki að vinna það sem eftir er ævinnar, jafnvel hvorki börn þeirra né barnabörn, vegna gróðans af sölu kvótans úr hinni sameiginlegu auðlind. Svo gæti eins farið með vatnið af því að í þessu frumvarpi er dregið úr skyldu sveitarfélaganna til að reka vatnsveitur. Þeim ber ekki að reka vatnsveitur. Þau mega reka vatnsveitur. Það eru sem sé aðrir sem mega orðið reka vatnsveitur og eiga þá að gera það. Bændur og aðrir landeigendur eiga vatnið og vatnsréttindin. Það má sem sé versla með þau og selja réttindin eða landið og það er að gerast núna, hvort sem þetta frumvarp eða eitthvað annað hefur ýtt undir þá þróun, að menn hafa farið um allt og keypt jarðir. Í hvaða tilgangi? Það er ekki búið á þeim öllum. Þessi þróun er áberandi núna í landbúnaðinum nákvæmlega eins og í sjávarútveginum. Menn eru að kaupa jarðir vitandi að jarðirnar sem slíkar geta ekki annað en hækkað í verði. Jarðargæði og vatnið valda því að jarðirnar eru gullkista sem gera ekkert annað en hækka í verði. Svo gætu vatnsréttindin orðið framseljanleg auðlind rétt eins og fiskurinn í sjónum. Þetta er sú framtíð sem ég sé fyrir mér að muni leiða af þessu. Þegar talað er hér um einkavæðingu vatnsins þá er það vegna þess að þetta frumvarp ýtir frekar en nú er undir það að vatnið sem auðlind færist á færri hendur og að upp komi einkareknar veitur, félagsveitur, háeffveitur eða hvað það heitir, og að ekki verði lengur til staðar sú samfélagslega skylda sveitarfélaganna sem við höfum litið á sem sjálfsagða fram að þessu.

Það má alveg nefna dæmi sem er ekki langt frá okkur um sveitarfélag sem á vatnsveitu og land. Það á í fjárhagserfiðleikum rétt eins og mörg önnur sveitarfélög. Það hefur þurft að selja frá sér stofnanir sem sveitarfélaginu var sárt um og selja frá sér land eins og mörg sveitarfélög hafa þurft að gera bæði af fjárhagsástæðum og eins vegna pólitískra ákvarðana. En á því landi er vatnsveita og sem var og er í eigu sveitarfélagsins en stendur þar af leiðandi á landi sem einstaklingur á. Hvernig er með leigu á vatninu sem sveitarfélagið þarf að greiða? Það þurfti auðvitað ekki að greiða neina leigu meðan það átti landið. Síðan eignast einstaklingur þetta land. Þetta er bara dæmigert. Úti í sveit er greidd leiga fyrir vatnsréttindi. Þetta gera sveitarfélög. En ef þetta frumvarp verður að lögum og eignarrétturinn verður miklu sterkari en hann er í dag þá getur sá sem nú á landið sem gefur veitunni vatnið krafist mun hærri gjalda og leigu fyrir vatnsréttindin. Sveitarfélagið gæti því staðið frammi fyrir tvennu, þ.e. að kaupa aftur til sín landið og vatnið og þá á mun hærra verði en nokkurn tíma áður, því það er kominn annar verðmiði, eða sætta sig við mun hærri gjaldtöku fyrir vatnið. Þar af leiðandi hækkar vatnsskattur íbúanna í þessu sveitarfélagi sem og öðrum. Þetta er hluti af þessu ferli. Það er nefnilega munur á nýtingarrétti og eignarrétti þegar kemur að þessu.

Vatn er mannréttindi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er að reyna að vinna að því með mjög öflugum hætti út um allan heim að snúa til baka þróun einkavæðingar á rekstri vatnsins yfir í það að koma því aftur í almenningsveitur þannig að hinir fátækari og fátækari lönd, ekki bara einstaklingar heldur fátækari lönd, fái betri og meiri aðgang að vatni en þeir hafa nú. Það er mikil lífsreynsla að lesa um hver þróunin hefur verið í mörgum heimsálfum þar sem einkavæðing vatns hefur náð fótfestu og náð heljartaki á borgum, á þjóðum og hefur í raun fjöregg þessara þjóða í hendi sér. Þetta er dapurleg saga sem ég hvet flesta og alla til að kynna sér. Þetta hefur bara verið svo órafjarri okkur. En þróun hér í þjóðfélaginu á undanförnum árum hefur verið á þá leið að markaðshugtakið og hugmyndirnar hafa alltaf verið að styrkjast og krafan um sölu ríkisfyrirtækja og einkavæðingu á öllum sviðum hefur styrkst og sú vinna er í gangi í mörgum fyrirtækjum. Ríkisútvarpið er í vinnslu hjá okkur í dag og síðan er það Rarik og það er fleira þannig að þessi þróun er mjög hröð. Þetta miklu nær okkur heldur en var fyrir fáum árum síðan. Einhvern veginn var þetta bara úti í heimi og ekkert að koma til okkar.

Nú er ég ekki að gera því skóna, hæstv. forseti, að við munum standa frammi fyrir jafnmiklum vandamálum og þau lönd sem hafa verið svo fátæk að þau bókstaflega af fátækt og vankunnáttu og vanmætti hafa misst vatnsréttindi sín til stórra fyrirtækja sem eru auðvitað í þessum iðnaði til að hafa af því tekjur og mikinn gróða. Það er svo augljóst þegar maður veit hvernig framtíð fyrirtækja í vatnsiðnaðinum verður. Olíufyrirtækin munu í framtíðinni í æ ríkari mæli að snúa sér frá vinnslu, dreifingu og umsýslu með olíu yfir í að vera með þjónustu eða umsýslu í vatni. Ég man eftir stuttri blaðagrein eða viðtali við þann sem hefur verið kallaður Óli í Olís. Hann var að selja fyrirtæki sitt og ætlaði að skella sér í vatnsbúskapinn eða vatnið, hvað sem hann meinti með því. Ég er ekki með þessa grein fyrir framan mig, hæstv. forseti. En ég man eftir að hafa lesið þetta og hugsað: Jæja, er þetta nú litli puttinn og vísirinn að því sem við erum að fylgjast með, þ.e. sú einskæra tilviljun að fara úr olíunni í vatnið. Ég tel, eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, að við búum við það sterkt þjóðfélag að við förum aldrei jafnilla út úr þessu og hinar fátækari þjóðir. En þessi þróun er í gangi og þetta frumvarp auðveldar og flýtir fyrir þessari þróun. Það er alveg augljóst.

Hvað varðar stöðu bænda þá nefndi ég áðan að með frumvarpinu er eignarréttur þeirra gerður enn skýrari. Í núgildandi lögum eru þeim tryggðar bætur ef einhver röskun verður á landi þeirra vegna framkvæmda eða jafnvel af völdum náttúrunnar en í frumvarpinu eru það ekki bætur heldur standa þeir miklu sterkar. Ég get í sjálfu sér vel sett mig í spor lögfræðinga og dómara. Það er auðvitað miklu einfaldara að fjalla um mál þar sem er hreinn eignarréttur en ekki nýtingarréttur. Það er miklu einfaldara og miklu skýrara en það er ekki þar með sagt að við viljum hafa það þannig. Það er málið.

Mér finnst bændur þurfa að vera mjög vel á verði varðandi búskap sinn því fyrir utan vatn til eigin nota, til heimilishalds og brýnna þarfa, er eingöngu nefndur kvikfjárbúskapur en það eru vitaskuld miklu fleiri greinar sem bændur leggja stund á í dag og þyrfti að vera vel á verði gagnvart þeim.

Varðandi þann lagatæknilega flókna kafla sem stendur á bak við þetta, en fram kom í máli höfundar þessa frumvarps, Karls Axelssonar, að fram undan væru mjög flókin úrlausnarefni vegna Kárahnjúkavirkjunar, og ummæli hv. þm. Péturs H. Blöndals um að búið væri að klára Kárahnjúkavirkjun, um hana væru sérstök lög, þá er það alveg rétt að framkvæmdir við Kárahnjúka, aðrennslisgöng og önnur mannvirki, eru vel á veg komnar, en Jökla rennur enn þá í farvegi sínum og á meðan hún gerir það kemur ekki upp krafa um skaðabætur, hvorki frá bændum á Jökuldal sem munu missa Jöklu, jökulvatnið frá sér, né frá bændum sem búa við Lagarfljótið sem munu að öllum líkindum verða fyrir þungum búsifjum vegna hækkaðs vatnsborðs eða annars skaða sem helmingi meira vatn í fljótinu getur valdið. Það kemur ekki til þessara flóknu úrlausnarefna fyrr en að fljótaflutningunum kemur. Og þar sem ekkert er nefnt í lögum um Kárahnjúkavirkjun hvernig fara eigi með þetta mál þá verður það náttúrlega stórt þegar þar að kemur. Á bak við það eru flókin úrlausnarefni fyrir lögfræðinga og ég skil mætavel að þeir sem fara með eignarréttarmál og dómarar telji auðveldara að hafa um þetta hreint og klárt eignarréttarákvæði. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum ekki sammála því.

Hæstv. forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tilefni lögtöku nýrra vatnalaga og það sem hæstv. iðnaðarráðherra las hér upp, að fallist hefur verið á það við afgreiðslu málsins að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2007 og fram að þeim tíma verði þau ásamt öðrum lögum sem snúa að vatni og vatnsnotkun, nýtingu þess og vernd, skoðuð í samhengi, tel ég vera, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, mikilvægt fóður inn í næstu alþingiskosningar og í þá vinnu sem fram undan er næsta vetur að geta unnið áfram með þetta mál og það verði ekki lögfest á þessu vorþingi.