132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:21]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Flokkur hv. þm. Þuríðar Backman hefur á liðnum dögum og liðnum vikum afflutt efni þessa frumvarps og haldið á lofti slíkum rangfærslum að það er ekki sitjandi undir þeim, m.a. eins og þeim að ætlun stjórnarliða í þinginu sé sú að einkavæða vatnið og tálma aðgang almennings að vatni. Þess vegna hljótum við að hlusta mjög grannt loksins þegar menn eru farnir að ræða efni málsins og hættir að eyða tíma og tálma störf þingsins með þeirri framkomu sem verið hefur, þá hljótum við að hlusta mjög eftir því hver vilji þeirra er. Þess vegna hlustaði ég mjög grannt á ræðu hv. þm. Þuríðar Backman og er akkúrat engu nær því það vill svo til að þegar gömlu lögin voru sett þá var það Alþingi sem ákvað þetta. Allar götur síðan hafa dómar og fræðimenn verið að túlka og skýra þessi lög og m.a. leitað að löggjafarviljanum. Niðurstaðan var sú að það væri einkaeignarréttur jarðeigenda, landeigenda, á vatni á jörðum sínum og til allrar nýtingar.

Nú kom það í ljós fyrr í dag að a.m.k. Vinstri grænir — ég veit ekki með aðra í stjórnarandstöðunni, það á vonandi eftir að koma í ljós — vilja þjóðnýta vatnið, sem segir mér að hv. þm. Þuríður Backman og flokksmenn hennar vilja svipta bændur landsins eignarrétti sínum á vatni. (JBjarn: Þetta er ómálefnalegt hjá þér.) Nei, þetta er einmitt kjarni málsins og nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvaða takmarkanir voru á rétti bænda eins og lögin hafa gilt síðan 1923, fullum einkarétti þeirra?