132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:24]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki von að hv. þm. Jónína Bjartmarz skilji málflutning okkar og alls ekki okkar í Vinstri grænum þegar ég get alls ekki skilið spurningu hennar eftir allt sem hér hefur verið sagt. Ég kalla það í hæsta máta útúrsnúning. Enginn sem ég hef hlustað á hefur sagt að það sé ætlun stjórnarliða að einkavæða, að það sé ætlunin. (Gripið fram í: Nú?) En þetta frumvarp mun hjálpa til við að fara í einkavæðingu á vatninu og samkvæmt stjórnaráherslum ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða þá er það á stefnuskrá þeirra. Það stendur hvergi í þessu frumvarpi að það eigi að einkavæða en þetta mun leiða til frekari einkavæðingar og eins og segir í breytingartillögunni verður það ekki lengur hlutverk eða skylda sveitarfélaga að sjá um vatnsveitur þar sem það verður annarra, og hverra þá? Það er einkavæðing hérna á bak við.

Það hefur enginn nefnt í þessari umræðu að það eigi að hindra almenning í aðgengi að vatni. Það er nýtingarrétturinn sem við viljum halda í. Það er eðlismunur á nýtingarrétti og eignarrétti. Þetta stendur þarna. Það er bara málið. Það er mikill munur á því að eiga hlutinn eða hafa heimild til að nýta hann, horfum bara á fiskveiðistjórnarkerfið frá því að heimilt var að nýta auðlindina og fram til þess að eiga kvótann, selja hann og framselja hann.