132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:30]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu ágæts hv. þm. Þuríðar Backman endurspeglast mikil vanþekking sem er hér í gangi. Þingmaðurinn talar um að ef þetta frumvarp verði að lögum geti vatnsréttindi verið keypt og seld. Þau hafa verið keypt og seld. Þingmaðurinn talar um að þá verði mögulegt að vatnsveitur verði ekki í eigu sveitarfélaga. Þau eru ekki í öllum tilfellum í eigu sveitarfélaga. Þetta er einhver misskilningur.

Það er talað um að hér sé verið að einkavæða vatn og koma málum þannig fyrir að almenningur hafi ekki lengur sama rétt og áður. Ég spyr þingmanninn: Hefur hún ekki lesið 15. gr.? Ég ætla að lesa hana fyrir þingmanninn og þingheim. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forgangur að vatni. Vatnstaka til heimilis- og búsþarfa gengur fyrir annarri vatnsnýtingu. Heimilisþörf gengur fyrir búsþörf.

Heimilt er fasteignareiganda að sækja sér vatn til heimilis- og búsþarfa á aðra fasteign ef eiganda þeirrar fasteignar verður ekki óhæfilegur bagi að enda sé slík vatnstaka á eigin fasteign ómöguleg eða til muna erfiðari. Þegar svo hagar til getur eigandi þeirrar fasteignar sem vatn er tekið úr krafist bóta, þar með talið fyrir tjón og óþægindi sem framkvæmdin bakar honum. Náist ekki samkomulag með aðilum um bætur skulu þær ákveðnar með eignarnámsmati.

Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til töku vatns til vatnsveitu innan sveitarfélags á eftir heimilis- og búsþörfum fasteignareigenda. Um vatnsveitur sveitarfélaga fer samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga.

Nái sveitarfélag ekki samkomulagi við fasteignareiganda um töku vatns í landi hans til vatnsveitu, eða um önnur atriði sem nauðsynleg má telja í því sambandi, getur iðnaðarráðherra heimilað að nauðsynlegt land, mannvirki og aðstaða til nýtingar og töku vatnsins og lagningar vatnsveitu, sem og önnur réttindi fasteignareiganda, verði tekin eignarnámi.“

Ég spyr: Hefur þingmaðurinn ekki kynnt sér þessa grein?