132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:32]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Jú, hæstv. forseti, ég hef kynnt mér þessa grein og hún er óbreytt frá núgildandi lögum nema að því leytinu til að í núgildandi lögum á bóndi að fá bætur en samkvæmt frumvarpinu má beita eignarnámi. Með nýtingarrétti fá bændur bætur ef þeir missa af landgæðum eða öðru slíku en samkvæmt þessu frumvarpi þarf annaðhvort að kaupa af þeim eða taka eignarnámi. Það er eðlismunur á þessu. (GÞÞ: Það hefur alltaf verið gert.)

Auðvitað veit ég það, hv. þingmaður, að þetta er miklu sterkara í frumvarpinu en það er í dag. Í núgildandi lögum er alltaf talað um réttinn en í frumvarpinu er alltaf talað um eignarnám.

Hæstv. forseti. Auðvitað veit ég að vatnsréttindi eru keypt og seld í dag. Það er þannig og ég veit um það. Og áhugi annarra en sveitarfélaga til að reka vatnsveitur hefur verið að færast í vöxt, því það er auðvitað mjög tryggur rekstur að vera í vatnsveitunum. En það er réttur landeiganda, umráðamanns vatnsins sem er miklu sterkari í frumvarpinu en er í dag. Það sem hv. þingmaður las upp um heimilisþörf sem gangi fyrir bústörfum og annað slíkt er í núgildandi lögum og þess vegna styð ég það sem núna er gott í núgildandi lögum um nýtingarréttinn og þau ákvæði sem hv. þingmaður las upp úr 15. gr.