132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:36]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi takmarkanirnar þá eru þær litlar í dag og réttindi landeigenda eru mjög víðfeðm. Það er í raun verið að horfa meira inn í framtíðina og þá möguleika sem þar koma varðandi þá breytingu sem gerð er í frumvarpinu. Þar er opnað fyrir miklu meira. Í raun og veru er verið að opna inn í gufuhvolfið sjálft í frumvarpinu.

Varðandi rekstur vatnsveitnanna þá hefur átt sér stað þróun sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum andmælt en það er að taka almannaþjónustuna, þ.e. hina félagslegu þjónustu sem við teljum að eigi að vera hjá ríki eða sveitarfélögunum og setja hana í æ meira mæli yfir í einkarekstur og annan rekstur, hvort sem það er sf eða hf eða önnur rekstrarform þá er það ólíkt hinum félagslega rekstri. Að mótmæla slíku er í anda stefnu okkar.

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það eru því miður mörg sveitarfélög sem hafa dregist inn í einkareksturinn, annars vegar af pólitískum toga — þar sem Sjálfstæðisflokkur hefur því miður víða verið nokkuð sterkur — (GÞÞ: Bara í Reykjavík.) en hins vegar vegna fjárhagslegs vanda sveitarfélaganna sem leitt til þess að þau hafa reynt að losa sig við og selja það sem hefur verið arðbært í rekstri þeirra til að bjarga sér. Þar má m.a. nefna hitaveituna í Ólafsfirði sem Ólafsfirðingum var mjög óljúft að selja en voru tilneyddir til að bjarga fjárhagsstöðu sinni. Þannig hefur farið fyrir vatnsveitunum líka. Þarna er bæði um að ræða pólitík og fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og þessu erum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði algerlega andvíg og höfum allt aðra pólitíska skoðun á.