132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Núna sér fyrir seinni hlutann á 2. umr. um þetta mikla átakamál sem úr varð á Alþingi og ljóst að það verður verkefni nýs þingmeirihluta eftir næstu þingkosningar að ákveða hvort vatnalögin svokölluðu taki nokkurn tíma gildi. Ríkisstjórnin var búin að missa tökin á málinu og féllst á það seint í gærkvöldi að breyta frumvarpinu þannig að lögin tækju ekki gildi fyrr en tæpum sex mánuðum eftir kosningar. Okkur andstæðingum málsins gefst því svigrúm til að koma í veg fyrir að lögin taki gildi sem slík eða verði a.m.k. í verulega breyttri mynd. Haldi stjórnin velli taka lögin gildi og ríkisstjórnin hefur stigið skref inn í framtíðina í átt að því að einkavæða vatn. Sigri stjórnarandstaðan í kosningunum verður sú einkavæðing ekki að veruleika þar sem komið verður í veg fyrir það. Stjórnarandstöðunni tókst að sýna fram á málefnalegar efasemdir og að veikur grunnur væri undir þeim staðhæfingum að málið fæli einungis í sér formbreytingu. Það var mjög skýrt dregið fram af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í ræðustól á undan mér þar sem hún vitnaði mjög skýrt í lagaskýrandi texta og í umræður frá því að vatnalögin voru sett á sínum tíma árið 1923. Þá var það morgunljóst að menn tókust á um eignarréttinn annars vegar og umráð og hagnýtingu hins vegar með mjög skýrum hætti. Um það stóðu deilurnar þá, um það var kosið og það var leitt til lykta á þeim tíma á hinu háa Alþingi. Um það er engum blöðum að fletta sé vitnað til þeirra texta sem til grundvallar liggja.

Það má segja að deilan um vatnalögin hafi í reynd verið átök á milli frjálshyggjusjónarmiða annars vegar og félagslegra viðhorfa hins vegar. Hún snerist um grundvallaratriði, pólitískt prinsippmál um grundvallaratriði um eignarhald og nýtingu á sameiginlegum auðlindum. Hér var um að ræða auðlindina vatn, hefði alveg eins getað verið og vísar inn í deilur og umræður síðustu ára og áratuga um fiskinn í sjónum, djúphitann, orku fallvatnanna, öll landsgæði sem þjóðin á sameiginlega, að mínu mati og okkar í stjórnarandstöðunni, vinstri flokkanna allra, og enginn á að geta slegið séreign sinni á eins og þetta frumvarp til vatnalaga er lagt upp með. Og þegar málið komst út úr því ferli að vera þras um lagatæknilegar útskýringar á þessu eða hinu og umræðunni var beint að kjarna málsins, þá snerist hann akkúrat um þetta, um eignarhald á vatni til framtíðar litið.

Mjög athyglisverð grein var í tímaritinu Fortune á dögunum þar sem það virta tímarit fullyrti að vatn væri dýrmætari auðlind á 21. öldinni en olía var þegar hún var hvað verðmætust á þeirri 20. Má segja að ýmis átök í heiminum hafi orðið í kringum yfirráðin yfir olíulindunum og séu að mörgu leyti enn. Þetta fullyrða þeir sem margir telja að sjái hvað lengst inn í framtíðina hvað varðar auðlindir og auðlindanýtingu, að vatnið verði dýrmætara á þessari öld sem nú er nýhafin heldur en olían var þegar hún var hvað verðmætust á öldinni sem var að líða og er enn. Mjög merkileg athugasemd og merkilegur punktur sérstaklega í því ljósi að efist einhver um það eftir að hafa hlýtt á stjórnarliða halda því ítrekað fram að við séum að deila um formbreytingu og smáatriði, málið sé keyrt upp af stjórnarandstöðunni til að efna til ófriðar og átaka þá eru það staðlausir stafir. Hér er tekist á um algert grundvallarmál.

Lögin mundu í sjálfu sér ekki breyta neinu á morgun eða daginn eftir að þau tækju gildi, en sé litið til framtíðar breyta lögin miklu um eignarhald á þessari dýrmætustu auðlind hverrar þjóðar, vatninu. Þau munu ráða því hvernig verður farið með þessar auðlindir og yfirráð yfir þeim eftir marga áratugi. Í vatninu munu felast gífurleg verðmæti fyrir þjóðir og einstaklinga, eftir því hver ræður yfir auðlindinni.

Þegar líða fór á deilurnar um málið, m.a. í ljósi málflutnings eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafði uppi áðan, var engum blöðum um það að fletta að tekist yrði á um eignarhald yfir auðlindinni, séreign annars vegar og umráða og hagnýtingarrétt á vatninu hins vegar. Slagurinn um vatnið er því um algert grundvallarsjónarmið og um grundvallarmál. Málið vísar bæði fram og aftur í stjórnmálasögu okkar en öll stærstu og mestu átök okkar, bæði innan lands og milli þjóða, við aðrar þjóðir, pólitískar deilur, hafa staðið um auðlindir. Það er sama hvort litið er til Svalbarða og síldarinnar eða Smugunnar og þorsksins, landhelgisdeilunnar og Breta. Auðlindadeilur snúast um grundvallarmál.

Því var hent á loft fyrr í dag að þessi deila og aðrar deilur um auðlindayfirráð virkuðu sem vatnaskil á milli vinstri og hægri. Það er alveg rétt, notist menn við þau gömlu hugtök um skiptingu manna í stjórnmálaflokka, félagsleg sjónarmið annars vegar og frjálshyggja hins vegar. Þá má alveg taka undir að deilan um vatnalögin, fremur en aðrar stórar deilur á síðustu árum eins og deilurnar um fjölmiðlalögin og gagnagrunninn sem voru í eðli sínu og inntaki þverpólitískar, ef við notum vinstri og hægri skilgreiningar, sé flokkspólitískari. Inntak deilunnar er mjög flokkspólitískt, ef maður notast við skilgreiningarnar félagsleg sjónarmið og frjálshyggju hins vegar. En hér er tekist á um eignarhald og yfirráð yfir takmörkuðum gæðum, yfir auðlindum, hvort eignarhaldið eigi að vera stjórnarskrárbundið eignarhald þjóðarinnar allrar, eins og við jafnaðarmenn viljum að sé á fiskimiðum vatnsföllunum, auðlindum í jörðu og rennandi vatni. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli um hvaða auðlind er rætt hverju sinni. Það gilda alltaf sömu prinsippin og einnig í þessari deilu um eignarhald og yfirráð yfir vatninu, líkt og í pólitískum deilum um þær auðlindir sem ég taldi upp áðan.

Útúrsnúningar og vegleysur stjórnarliða í málinu, allt talið um formbreytingar og hið lagatæknilega fjas sem er svo auðvelt að týna sér í og deila um klukkutímum saman, skipta því engu máli þegar allt kom til alls. Þegar deilan var farin af stað fyrir alvöru, eða hin pólitísku átök réttara sagt voru hafin fyrir alvöru þá held ég að ansi mörgum sem fylgjast með þjóðmálunum hafi orðið ljóst að tekist er á um grundvallarmál og þær mælingar sem hafa farið fram á viðhorfum almennings til vatnalaganna til þessa hafa sýnt að mikill afgerandi meiri hluti, þ.e. 60–80%, er á móti vatnalögunum eins og þau birtast fólki. Það tókst í raun ekki að slá ryki í augu stjórnarandstöðunnar né almennings með að um væri að ræða sakleysislega litla formbreytingu og einhvers konar lagahreinsun, eins og það var kallað. Það undarlega orð á að vera til, að lagahreinsa og uppfæra gömul lög og færa þau til nútímans. Þar áttu ekki að vera breytingar sem skiptu máli. Auðvitað er sjálfsagt að endurskoða og laga til lög. En hér stefndi í að Alþingi afgreiddi vatnalög með þeim hætti að séreignarréttur á vatni yrði lögfestur.

Sigur stjórnarandstöðunnar er mjög merkilegur í ýmsu tilliti. Í stjórnmálasögulegu ljósi m.a. er hann mjög stór. Stjórnarandstöðunni tókst með hörðum en málefnalegum málflutningi síðustu daga að fá það fram, með því að sættast á að umræðunni lyki á tilteknum dögum, að fá það í gegn að gildistaka laganna var færð vel aftur fyrir næstu kosningar, sem eru eftir tæplega eitt og hálft ár. Þannig vannst áfangasigur í deilunni um vatnalögin. Því ber að sjálfsögðu að fagna og það var gert með þeim hætti að stjórnarflokkarnir komast frá því laskaðir en ekki stórskaðaðir eins og stefndi því. Stjórnarandstaðan vann málefnalegan en nokkuð afgerandi sigur í prinsippmáli sem alltaf verður deilt um.

Það er sjálfsagt mál að stjórnmálamenn berjist fyrir séreignum á auðlindum, hvort sem það er á fiskimiðum, vatni, auðlindum í jörðu, fallvötnum eða fossum. Það er ekkert að því. Í sjálfu sér er hægt að taka ofan hattinn fyrir þeim fáu þingmönnum sem tóku deiluna á þeim grundvelli, eins og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Hann beitti því ekki fyrir sig, eins og þeir í Framsóknarflokknum beittu fyrir sig, að hér væri um að ræða lítils háttar formbreytingu sem skipti engu máli. Þeir öttu Framsókn á foraðið á mjög dapurlegan hátt fyrir Framsóknarflokkinn.

Ég held að áhrifa þessarar deilu muni gæta nokkuð lengi, ekki aðeins þannig að hún hafi vakið nokkuð afdráttarlausa, opinskáa og pólitíska umræðu um auðlindir. Umræðan snýst um yfirráð Íslendinga allra yfir auðlindum sínum, eða fárra og ríkra, eins og alltaf þegar auðlind er einkavædd eða séreign er tekin upp á auðlindum. Fari auðlindin á markað geta einstaklingar safnað auðlindunum saman, gert úr þeim aukin verðmæti og þær farið að ganga kaupum og sölum. Vatnið er svo mikilvæg auðlind að það má að sjálfsögðu aldrei verða svo, enda var tekist á um þetta pólitíska grundvallarmál með þeim hætti.

Áhrifa átakanna mun hins vegar gæta lengi. Þar urðu ákveðin vatnaskil á milli vinstri og hægri. Átök um grundvallarmál eins og auðlindanýtingu og sameignarákvæði um auðlindir í stjórnarskrá skipta fólki í flokka og fylkingar. Slík mál skipta fólki í hægri og vinstri, ef einhver mál gera það. Mörg mál eru orðin þverpólitísk nú til dags. Sveitarstjórnarmál eru t.d. oft býsna þverpólitísk og ekki tekist á um pólitískan kjarna eins og áður var gert. Hér var deilt um pólitísk grundvallaratriði sem skipti fólki í fylkingar og flokka. Flokkar verða bókstaflega til eftir afstöðu okkar til eignarhalds og nýtingar á auðlindum.

Ég held að þetta mál muni hafa þau áhrif að þjappa stjórnarandstöðunni saman um pólitísk viðhorf til grundvallaratriða, pólitísk lífsviðhorf gagnvart eignarhaldi á auðlindunum. Sigurinn í þessari deilu um vatnalögin vannst af því að stjórnarandstaðan stóð saman og stóð sig vel í málinu. Hún var allan tímann mjög málefnaleg, nálgaðist málið málefnalega og með yfirveguðum hætti, án þess að málið færi langt út fyrir hinn pólitíska kjarna. Það tókst að halda málinu þannig, sem er ekki sjálfgefið í jafnhörðum og langvinnum átökum. Samstaða vinstri manna og jafnaðarmanna í þessu pólitíska grundvallarmáli skilaði þeim sögulega áfangasigri sem við hrósum í dag, þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir hafa fallið frá því að lögin taki gildi þegar Alþingi hefur afgreitt þau. Þau taka ekki gildi fyrr en vel eftir næstu kosningar þannig að nýr þingmeirihluti mun ráða því hvernig fer fyrir eignarhaldi á vatni. Málið verður því að skýru kosningamáli og verður vonandi þá einnig rætt og tekist á um niðurstöðu stjórnarskrárnefndar þannig að fyrir liggi almenn auðlindastefna flokkanna þar, sem eitt af sameiginlegum flaggskipum Samfylkingar, eru sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, stjórnarskrárbundin yfirráð Íslendinga yfir auðlindum sínum. Okkur er mikill akkur í að um þetta verði kosið og þá yrði kosið um eitthvað sem skiptir máli.

Þetta hefur skipt flokkunum fimm á Alþingi í tvær skýrar blokkir: hægri blokk sjálfstæðismanna og hluta Framsóknarflokksins og hins vegar Samfylkingar, Vinstri grænna, Frjálslyndra, og líklega einhverra hluta framsóknarmanna þótt það hafi ekki komið skýrt fram. En í þeirra herbúðum var órói og má ætla að þessi deila hafi náð inn í raðir stuðningsmanna Framsóknarflokksins, en þeir hafa fylgt viðhorfum stjórnarandstöðunnar og félagshyggjuaflanna á Alþingi í þessu máli.

Hvort vatnalögin verði til þess að vinstri stjórn verði mynduð eftir rúmlega ár ætla ég ekki að segja. En það er ekkert ólíklegt að vatnalögin hafi skapað grundvöll fyrir nýja vinstri stjórn eftir rúmt ár. Það er útilokað að segja til um það núna. Úrslit kosninga ráða því að sjálfsögðu, styrkur flokka og hvað afgerandi stærð þessara tveggja flokka verður eftir næstu kosningar, annars vegar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og hins vegar jafnaðar- og félagshyggjumanna í hinum flokkunum, Samfylkingu, Vinstri grænum og frjálslyndum. Það kemur í ljós þegar þar að kemur. En deilan og átökin um vatnalögin skiptu flokkunum í mjög skýrar fylkingar sem mun vonandi skila enn öflugri stjórnarandstöðu sem nær enn þá betri árangri á Alþingi. Þetta er í annað sinn á þessu kjörtímabili þar sem stórir sigrar vinnast út af órofa samstöðu stjórnarandstöðuflokkanna, jafnaðar- og félagshyggjufólks á Alþingi, í stórum átaka- og grundvallarmálum í samfélaginu.

Hið sama gerðist í fjölmiðlalögunum fyrir nákvæmlega tveimur árum. Sú umræða og þau átök stóðu vikum saman, langt fram á sumar þangað til forseti Íslands beitti málskotsrétti sínum og vísaði því lagafrumvarpi til þjóðarinnar. Þá brast kjarkur ríkisstjórnarinnar. Hún afnam lögin. Þá sögu þekkjum við öll, stórbrotna átakasögu. Hún er einstök á lýðveldistímanum að því leyti hve hart var tekist á og hve deilan gekk langt. Í fyrsta sinn í lýðveldissögunni beitti forseti málskotsrétti, synjunarvaldi eins og sumir kalla það. Málskotsréttur, séu lesnir lagatextar sem skýra anda og tilurð laganna á sínum tíma á Alþingi Íslendinga. Þessi deila var að því leyti samanburðarhæf að hér var tekist á um grundvallarmál, þó enn þá meiri grundvallarmál. Þó er skýrara grundvallarmál á ferð í vatnalögunum en í fjölmiðlalögunum að mínu mati. Deilan er mun skýrari, um miklu stærra mál í sjálfu sér.

Það mátti færa rök fyrir því að fjölmiðlalögin væru aðför að málfrelsi og prentfrelsi, sértæk lagagerð sett fram til að knésetja eitt ákveðið fjölmiðlafyrirtæki, þ.e. fjölmiðla í eigu Baugssamsteypunnar. Það fór sem fór um það. Hér er tekist á um eignarhald yfir auðlindum, grundvallarmál. Það mál sameinaði félagshyggjuöflin í eina órofa fylkingu sem vann mjög afgerandi áfangasigur seint í gærkvöldi, sigur sem stjórnarandstaðan getur verið mjög stolt af enda stóð hún vel að verki. Hverju það skilar okkur í kosningunum næsta vor, hvernig ríkisstjórn það skilar okkur verður að koma í ljós. En þetta skerpti vissulega línurnar á milli félagslegra sjónarmiða í íslenskri pólitík og sjónarmiða frjálshyggjumanna. Eitt stærsta baráttumál frjálshyggjumanna um víða veröld, þessi missirin og síðustu ár, er að koma vatnsauðlindum og slíkum grundvallarauðlindum í einkaeigu. Sú barátta skilaði sér með mjög afgerandi hætti inn á Alþingi Íslendinga í þessu máli, sem lauk með nokkuð viðunandi hætti í gær þannig að stjórnarandstaðan náði því fram að lögin taka ekki gildi fyrr en eftir næstu kosningar. Almenningi og kjósendum í landinu gefst færi á að kjósa m.a. um þessi lög, þótt alltaf sé voðalega hæpið að segja að það sé kosið um eitt, tvö mál eða þrjú mál. Þegar kjósendur ganga að kjörborðinu á fjögurra ára fresti þá ræður vali þeirra summa margra hluta. Það er ólíklegt að deila sem fór fram í upphafi kjörtímabilsins ráði miklu um það en auðvitað safnast þetta upp. Við sjáum hvernig uppsöfnuð stjórnmálaátök síðustu missira hafa leikið Framsóknarflokkinn, sem virðist að hluta til hruninn. Fylgi flokksins er a.m.k. mjög veikt.

En auðlindanýting og auðlindayfirráð koma vonandi fram í næstu kosningabaráttu.

Í lokin ætla ég að vitna í umsögn vegna þessa máls frá Umhverfisstofnun sem undirstrikar ágætlega málflutning minn þar sem ég held því fram og fullyrði að þetta snúist um eignarhald yfir þessari auðlind fyrst og síðast. Hér segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun telur frumvarpið og ganga gegn meginviðmiðunum í rammatilskipun ESB um vatn. Þar sé því lýst sem grundvallaratriði að vatn sem slíkt sé ekki viðskiptaleg eining, heldur sameiginleg arfleifð sem eigi að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það.“

Vatni sem slíku ber að vera í sameign en viðkomandi landeigendum sé færður tilgreindur afmarkaður nýtingarréttur svo sem til veiða, veitu, orkuöflunar og fleira. Einnig bendir Umhverfisstofnun á að frumvarpið gengur þvert á stefnuna í löggjöf Svíþjóðar og Noregs þar sem sérstaklega er tilgreindur réttur almennings til almennra nota á vatni, að vatn sé sameiginleg auðlind og landeigandi hafi ákveðinn nýtingarrétt.

Þetta er algert grundvallarmál, virðulegi forseti, og ég hef lokið máli mínu í þessari umferð.