132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:17]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek nú til máls í annað sinn við 2. umr. um frumvarp til vatnalaga en þegar ég lauk máli mínu síðastliðinn föstudag voru nokkur atriði sem ég átti eftir að fara yfir og vil ég í stuttu máli gera örlitla grein fyrir þeim.

Mér þykir mikilvægt að halda því til haga í þessari umræðu að alþjóðastofnanir sem fjalla um mannréttindamál og rétt fólks til lífs með reisn líta á vatn og aðgang að vatni sem algert grundvallaratriði. Vatnið er sannarlega lífslindin og vatnið er uppspretta alls lífs. Við erum því ekki að tala um neinn venjulegan hlut sem sé eðlilegt framhald út af einhverri þróun, dómaþróun, að setja skýrt eignarhald um, séreignarhald. Það finnst mér allsendis röng nálgun og þess vegna höfum við staðið í því að mótmæla þessu frumvarpi til vatnalaga þar sem skýra á eignarhald á vatni.

Virðulegi forseti. Mig langar í þessu sambandi að nefna það til gamans um vatn sem uppsprettu lífs að þegar menn ákveða að fara út í milljarðakostnað við að leita að lífi á öðrum hnöttum þá er það ekki gert fyrr en búið er að sannreyna að á þessum hnöttum sé að finna vatn vegna þess að í vísindunum er vatnið undirstaða lífs. Því finnst mér að menn geti ekki, eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa gert hér, komið hér upp og rætt um það sem hvern annan hlut sem sé fullkomlega eðlilegt að skýra eignarhald á út af einhverri þróun.

Frú forseti. Mig langar í þessu sambandi að minnast aðeins á að í mjög góðri grein sem Ingibjörg Elsa Björnsdóttir umhverfisfræðingur skrifar í Grænskinnu undir fyrirsögninni „Vatn í veröldinni“ kemur margt mjög áhugavert fram um vatn og sérstaklega þar sem hún fjallar um misjafnan aðgang að vatni og þann vatnsskort sem blasir við heiminum. Fram kemur í grein hennar að enda þótt um 71% af yfirborði jarðar séu hulin vatni búum við við vatnsskort en það er vegna þess að 97% af öllu vatni jarðar er of salt fyrir neyslu þannig að um 2,5% eru ferskvatn og er stór hluti þess geymdur í djúpum jarðlögum og í jöklum og ís og því er ekki hlaupið að því að nálgast ferskvatn. Sums staðar er nóg til og annars staðar ekki og þar ríkir vatnsskortur.

Í þessari grein tekur hún sem dæmi að deilur Ísraela og Palestínumanna séu að hluta til deilur um vatn vegna þess að vatnsskortur er mikill í Miðausturlöndum. Í greininni kemur fram að Ísraelsmenn skammta vatnið á Vesturbakkanum og að Palestínumenn noti mælanlega mun minna vatn en Ísraelar þannig að það virðist vera ákveðið valdatæki í stríði milli þjóðanna. Í þessari grein kemur fram að stjórn Ísraelsmanna á vatnsbirgðum Vesturbakkans hafi reitt marga Palestínumenn til reiði og það kyndi undir þeirri ólgu sem ríkir á hernumdu svæðunum þó að sjálfsögðu komi fleira til en vatnið og fleira í sögulegu samhengi.

Frú forseti. Í þessari grein kemur skýrt fram að árið 2050 muni vatnsskortur í einhverri mynd líklega hrjá flestar þjóðir heimsins. Eftir því sem vatnsskorturinn verður meiri þeim mun meira eykst hættan á átökum. Þetta er mjög í þeim anda sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað en árið 2002 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að skilgreina aðgengi að vatni sem grundvallarmannréttindi. Samhliða því kom fram yfirlýsing um að eftir 50 ár héðan í frá yrði vatn orðið mun verðmætara en olía eins og komið hefur verið inn á hér í ágætum ræðum. Í því ljósi finnst mér mikilvægt að skoða hvernig vatnsrétti og réttinum til vatns er fyrir komið hjá öðrum ríkjum vegna þess að við erum, eins og ég kom stuttlega inn á í ræðu minni fyrr í þessari umræðu, með þessu skýra eignarhaldi á vatni að marka okkur töluverða sérstöðu meðal þjóða í fyrirkomulagi á réttinum til vatns.

Ég er hérna með mjög góða og áhugaverða grein eftir Eyvind G. Gunnarsson, sem er einn af höfundum þessa frumvarps til vatnalaga. Hún birtist í ritinu Rannsóknir í félagsvísindum VI sem var gefið út í Reykjavík á síðasta ári. Í þessari grein kemur fram að í aldanna rás hafi menn verið að takast á um það hvers konar eignarform eigi að vera á vatni. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi má segja að þrjár meginstefnur hafi komið fram. Er þar fyrst að nefna allsherjarstefnuna sem byggist á því að vatn sé eign hins opinbera. Í annan stað er það séreignarstefna sem gerir ráð fyrir því að vatn fylgi fasteign. Loks er til sú stefna sem byggð er á því að vatn sé óeignarhæft. Þegar gengið er út frá því að vatn sé óeignarhæft er lagt til grundvallar að vatn geti hvorki verið undirorpið eignarrétti einstaklinga né hins opinbera.“

Frú forseti. Í þessari áhugaverðu grein sem mér finnst varpa góðu ljósi á málið — þessi grein er mjög skýrt fram sett og hún hjálpaði mér heilmikið við að fá reyna að fá einhverja sýn á þetta mál — kemur fram að í flestum ríkjum utan Norðurlanda sé almennt gengið út frá því að vötn tilheyri hinu opinbera. Í greininni segir einnig að talið sé að Rómarréttur hafi haft mikil áhrif í þeim efnum. Með leyfi forseta, ætla ég að fá að vitna í þessa klausu sem mér finnst skýra þetta ágætlega, þar segir:

„Í Rómarrétti var lagt til grundvallar að meiri háttar vötn væru almannagagn eða opinber eign en minni háttar vötn einkaeign. Aðgreiningin byggist á því að straumvatn var álitið meiri háttar ef það hafði árvisst rennsli en talið minni háttar ef það þornaði í sumarhitum. Í mörgum ríkjum Evrópu varð þróunin snemma sú að ríkið sem handhafi almannahagsmuna kom fram sem eigandi allra vatna sem þýðingu höfðu.“

Í þessari ágætu grein kemur fram hvernig litið er á vatn, þ.e. í flestum ríkjum utan Norðurlandanna, og hvernig það hefur þróast og að þetta hafi snemma orðið svona. Mér þykir mikilvægt að þetta komi fram, frú forseti, vegna þess að það er alveg ljóst að við erum að við erum að fara allt aðrar leiðir en farnar eru með því að skýra hér einkaeignarrétt á vatni. Það hefur komið fram í umræðunni að í Svíþjóð og Finnlandi hafi einkaeignarrétti fyrri tíma verið breytt. Fyrir þó nokkru var nokkuð skarpur einkaeignarréttur í Svíþjóð en árið 1984 var hann leystur af hólmi með almennari reglum sem veita yfirvöldum vatnamála að því er virðist heimild til að skerða hann bótalaust þegar hafin eru vatnsnot.

Mér finnst þetta verða að koma fram og að það verði líka að hafa komið fram við þessa umræðu að við séum að stefna í allt aðrar áttir en þau ríki sem við viljum vinna með og höfum gert á alþjóðavettvangi. Og til að undirstrika þetta þá segir mjög skýrt í vatnatilskipun Evrópusambandsins frá 2002 að vatn sé ekki eins og hver önnur verslunarvara heldur arfleifð sem ber að vernda, standa vörð um og fara með sem slíka.

Frú forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu að við höfum áhyggjur af hvert verið er að stefna með vatnið með því að kveða eins skýrt á um eignarrétt á því og hér er gert. Í því ljósi að Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst áratuginn 2005–2015 sem áratug vatnsins, í því ljósi Alheimskirkjuráðið hefur ályktað vegna áhyggna af vatnsskorti, að Sameinuðu þjóðirnar hafa gripið til aðgerða og beint því til ríkisstjórna heims að fara varlega með vatnið, að Evrópusambandið segir í vatnatilskipun sinni að vernda beri vatnið og fara eigi með það sem arfleifð en það eigi ekki að vera verslunarvara, þá finnst mér afar sérkennilegt að við ætlum að geirnegla eignarhald á vatni eða séreignarrétt á vatni.

Mér finnst þetta ekki rétt, frú forseti, og að hæstv. ríkisstjórn hafa gert fulllítið úr því hver þróunin hefur verið í öðrum ríkjum. Mér finnst menn ekki hafa tekið nægt tillit til þess og því vil ég taka undir með þeim og hnykkja á því sem fleiri hafa sagt hér að auðvitað hlýtur auðlindin vatn, lífslindin, að koma til umræðu í stjórnarskrárnefnd.

Frú forseti. Mig langar á síðustu mínútum ræðu minnar að fara aðeins yfir greinarnar um eignarhald á vatni, bæði í gildandi vatnalögum og í frumvarpinu sjálfu. Ég er ekki löglærð og stjórnarliðar hafa talað þannig hér að enginn skilji þetta nema löglærðir menn. En ég vil, frú forseti, fá að fara aðeins yfir það sem stendur í þessum texta. Í 2. gr. gildandi vatnalaga stendur:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Frú forseti. Í 4. gr. frumvarpsins segir: „Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Frú forseti. Eftir orðanna hljóðan er tvennt þarna sem ég hnýt um. Í fyrsta lagi það hvernig vatn er skilgreint í þessum greinum, þ.e. til hvaða forms vatns þessar greinar ná til. Í 2. gr. í gildandi lögum er klárlega eingöngu verið að fjalla um vatn, straumvatn eða stöðuvatn sem á landareigninni er þannig að þar er um að ræða yfirborðsvatn. En í frumvarpinu er talað um vatn sem á jörðinni er eða undir henni er. Til að skerpa þetta enn frekar hafa menn ákveðið að setja í 2. gr. frumvarpsins undir kaflanum Gildissvið texta sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Frú forseti. Ég skil þetta ekki öðruvísi en svo að hér sé um mun víðfeðmari ákvæði að ræða í frumvarpinu sem nú liggur fyrir, þ.e. verið er að reyna að ná utan um allt vatn, í hvaða formi sem er. Svo skýr er þessi texti.

Í öðru lagi, frú forseti, er alveg klárt í textanum að í gildandi lögum segir að hverri landareign fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á þessu yfirborðsvatni. En í greininni í núverandi frumvarpi fylgir eignarréttur að því vatni. Ég tel að á þessu sé talsverður munur samkvæmt orðanna hljóðan.

Frú forseti. Mig langar að fá að vitna í eitt sem er þessu tengt og ég tel vera kjarnaatriðið sem uppi er í deilum okkar um þetta svokallaða formsatriði eða formbreytingu sem kallað er af hv. stjórnarliðum. Í greinargerð með frumvarpinu segir á bls. 14, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að fremur er stuðst við neikvæða skilgreiningu á hugtakinu eignarréttur er sú að jákvæð skilgreining, þ.e. skilgreining þar sem taldar eru upp allar heimildir eiganda, sem í eignarrétti geta falist, yrði of viðamikil og sennilega aldrei tæmandi og því í eðli sínu ófullkomin.“

Frú forseti. Þetta segir ekki bara í greinargerð með frumvarpinu heldur hefur það greinilega verið tekið orðrétt upp úr greininni sem ég nefndi áðan eftir Eyvind G. Gunnarsson sem er einn af höfundum frumvarpsins. Þegar maður hefur lesið þessar greinar, bæði í frumvarpinu og gildandi lögum, finnst mér að þarna séum við komin að kjarna málsins. Það sem ríkisstjórnin virðist ætla sér er að ná utan um með tæmandi hætti allt form vatns og inn í framtíðina alla þá nýtingarmöguleika sem mögulegir væru fyrir þann sem á vatnið.

Það er akkúrat þarna sem skilur á milli. Þetta er ekki sú leið sem við í stjórnarandstöðunni viljum fara hvað varðar vatnsréttindin. Við teljum eðlilegra að það sé þá heldur ekki tæmandi listi yfir alla mögulega skapaða hluti sem hægt er að gera við vatn vegna þess að þá er frekar hægt að bæta við, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði fyrr í dag. Við þurfum þá í framtíðinni ekki að leggjast í íþyngjandi aðgerðir ef uppi er í lögum okkar neikvæð skilgreining á vatni. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi.

Eins og ég sagði er ég ekki löglærð kona en engu að síður tel ég mig geta lesið sæmilega og borið saman lagagreinar, bæði gildandi greinar og frumvarpsgreinarnar, og í lögskýringargögnum eða greinargerðum sem frumvarpinu fylgja. Ég sé þetta svona og það skilgreini ég sem grundvallarbreytingu þegar á að ná með tæmandi hætti utan um nýtingarmöguleika og vatnsréttindi. Um það, virðulegi forseti, tel ég að málið snúist.

Frú forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Það sem skiptir máli er að veruleg hætta er fólgin í því að fara þá leið sem hér er lögð til, þ.e. að ætla að fara með vatn eins og hvern annan hlut, að setja séreignarrétt með tæmandi hætti á það. Mín skoðun er sú, frú forseti, að hér sé veruleg hætta á ferð til framtíðar litið vegna þess að hér er verið að geirnegla séreignarrétt á vatni og erfitt að snúa til baka þegar svo er komið.

Frú forseti. Ég er líka ósammála því að á hinu háa Alþingi eigi þingmenn að vera í því hlutverki að stimpla einhvers konar dómaþróun sem hefur átt sér stað fyrir utan þetta hús.

Þó að það hafi verið gagnrýnt af hv. þingmönnum stjórnarliðanna finnst mér sjálfsagt á svona tímapunkti að fara yfir efnisatriði máls sérstaklega, eins og ég hef reynt að sýna á skilningi mínum á málinu, hvers vegna ég tel að um meira en formbreytingu sé að ræða. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði það líka ágætlega í ræðu sinni áðan þar sem hún fór með ákveðna kafla úr ræðum þeirra sem hér voru og settu lögin á sínum tíma sem síðan hafa verið túlkuð.

Frú forseti. Ég tel að hér hafi kristallast ólík sjónarmið, eins og skýrt hefur komið fram. Hér hafa tekist á sjónarmið frjálshyggjunnar sem vilja hafa séreign á öllum mögulegum hlutum og sjónarmið jafnaðarstefnunnar. Skýrara tel ég að það verði ekki. Ég hef áhyggjur af því að við séum að fara í allt aðrar áttir en önnur ríki, nema menn hafa kannski farið í svona séreign í ríkjum Mið-Ameríku reyndar með mjög alvarlegum afleiðingum á flestum stöðum, en ekkert af ríkjum Evrópu hefur farið þessa leið. Þau halda þessu öllu fyrir utan séreignina og það er ástæða fyrir því. Þetta er eitthvað sem við verðum að fylgjast með og taka þátt í.

Frú forseti. Mig langar að segja að lokum að eins og þetta snýr við mér, frú forseti, með þessari „formbreytingu“ eins og hún er kölluð til að reyna að gera málið léttvægt, þá er með formlegum hætti verið að gera vatnið okkar að séreign einstaklinga. Ég tel það ekki rétt í ljósi stöðu vatnslindanna í heiminum og tel það mjög hættulegt. Það er algert lykilatriði og grundvallaratriði að vatnið verði ekki eign fárra í framtíðinni, sér í lagi þar sem því hefur verið lýst að vatnið verði olía 21. aldarinnar. Á þetta eigum við að hlusta og slíka umræðu hef ég viljað taka við stjórnarliða, þessa grundvallarumræðu um vatn, en þeir hafa lítið gefið færi á sér í það og þykir mér það miður.

Frú forseti. Frumvarp þetta og þessi séreignarákvæði mun ég ekki geta samþykkt og mun því greiða atkvæði gegn því og tel að þetta verði að skoða miklum mun betur og vona svo sannarlega að okkur gefist tími til þess þar til lögin eiga að taka í gildi 1. nóvember 2007, að koma í veg fyrir að vatnið verði séreign einhverra örfárra í framtíðinni.