132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:23]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú þegar náðst hefur samkomulag um meðferð þessa máls og eftir stendur það sem kallað hefur verið af stjórnarandstöðunni pólitískur ágreiningur um efni þessa frumvarps er lag að stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar takist á, eftir að málþófi lýkur. Við getum reynt að fá afstöðu stjórnarandstöðu í þessu máli skýrar fram.

Ég heyrði stjórnarandstæðinga halda því á lofti að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þessum lögum og afleiðingum þeirra vegna þess að þau tækju ekki gildi fyrr en eftir næstu kosningar. Ef svo ólíklega vill til að önnur skipan verði á ríkisstjórn eftir næstu kosningar verð ég að segja, frú forseti, að eftir að hafa hlustað á umræðuna í dag tel ég ekki líkur á að nokkur breyting verði gerð á þessum lögum. Vinstri grænir tala fyrir þjóðnýtingu vatnsins og hv. þingmaður, síðasti ræðumaður, talar um að styrkja einkarétt bænda á vatni. En sumir í stjórnarandstöðu hafa borið þær sakir á stjórnarliða og ríkisstjórn að þeir ætli að einkavæða vatnið.

Ég spyr hv. þingmann hvaða líkur hann sjái á því að stjórnarandstaðan nái nokkurn tíma saman um nokkra nýbreytni á þessu sviði. Svo vil ég fá að upplýsa hv. þingmann, af því að við erum að skiptast á skoðunum í þessari umræðu, um að allt í gegnum þetta frumvarp segir að heimilis- og búsþarfir gangi fyrir. (SigurjÞ: Hvað?) Heimilis- og búsþarfir, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, ganga fyrir öllum öðrum þörfum. Ef bóndi hefur ekki nægan aðgang að vatni á sinni jörð þá hefur hann rétt til að taka það hjá nágranna sínum.