132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á því að stjórnarandstaðan hafi bjargað stjórninni. Ég er sannfærður um að þetta frumvarp verður numið úr gildi. Ástæðan er sú að þetta er slæmt frumvarp og ég er sannfærður um að framsóknarmenn munu sjá að sér. Að vísu er þetta orðið persónulegt metnaðarmál hjá einum hæstv. ráðherra en ég held að þegar menn fara yfir málið í heild sjái þeir að þetta er vont mál.

Hér nefndi ágætur hv. þingmaður að búsþarfir gengju fyrir öllum öðrum þörfum og menn hefðu ákveðinn rétt. En búsþarfir eru skilgreindar mjög þröngt í þessu frumvarpi. Það er einmitt það sem Bændasamtökin hafa gert athugasemdir við, að búsþarfir eru eingöngu skilgreindar til kvikfjárræktar. Ég hef fulla vissu um að ef svo ólíklega vill til að þessari ríkisstjórn verði ekki velt úr sessi þá er ég nokkuð viss um að framsóknarmenn munu sjálfir sjá að sér. Ég hef fengið símtöl frá liðsmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þar sem þeir lýsa því m.a. yfir að vatnafélögin séu þannig að þau valdi eingöngu réttaróvissu. Þetta er frumvarp sem ég held að sé andvana fætt ef það fæðist hér á morgun sem lög.