132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við viljum þjóðnýta vatnið, heitir það, þegar við tölum um að tryggja almenningi, þjóðinni, aðgang að vatni og kveða á um það að enginn geti slegið eign sinni á vatnið.

Hér var flutt nokkuð merkileg ræða. Hv. þm. Jónína Bjartmarz kveður sér hljóðs undir lok 2. umr. til að gefa þingmönnum einkunnir fyrir málefnalegt framlag til umræðunnar. Það dæmir hver fyrir sig um framlag hv. þingmanns hvað þetta snertir. Fram kom að stjórnarandstaðan hefði yfirleitt verið afar ómálefnaleg og í málþófi en stjórnarsinnar, og þá sérstaklega hv. þm. Jónína Bjartmarz, alveg sérlega málefnalegir. Hún hafi lúslesið frumvarpið og hún skilji þetta í þaula.

Síðan hófst lesturinn. Hún vitnaði í ráðstefnu um vatn skoðað frá ýmsum hliðum, sem haldin var á vegum verkalýðssamtaka, margvíslegra náttúruverndarsamtaka, kirkjunnar og ýmissa aðila í lok febrúarmánaðar á síðasta ári. Það er greinilegt að hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér vel hvað þar fór fram. Jú, jú, menn horfðu til fjarlægra landa og heimsálfa. Það var vikið að vatnabúskap á Íslandi. Þarna töluðu fræðimenn, náttúruverndarsinnar, verkalýðsfólk, um reynsluna af einkavæðingu á vatni. Það sem við höfum verið að leggja áherslu á í málflutningi okkar er að með þessum lögum er verið að stíga enn eitt skrefið í þá átt að skýra lögin hvað varðar einkaeignarrétt á vatni og umbreyta, (Forseti hringir.) ekki bara að forminu til heldur einnig að innihaldi, þeim lögum sem voru við lýði áður hvað þetta varðar.