132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:50]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson heldur því fram, og vil ég taka fram að mér hálfleiðist svona persónuleg umræða, að ég hafi verið að gefa öðrum einkunnir hér og tala um að umræðan væri ómálefnaleg. Stjórnarandstæðingar sjálfir hafa í ræðustól og í fjölmiðlum talað um málþóf. Það er ekki einkunn frá mér. Það eru orð einhverra stjórnarandstöðuþingmanna sjálfra og lýsing þeirra á umræðunni sem hér hefur farið fram, enda kom ekki það samkomulag sem gert var í gærkvöldi til af engu.

Ég vil halda því til haga sem ég sagði áðan um fyrrnefnda ráðstefnu að ég hefði getað skrifað undir yfirlýsinguna og hefði trúlega gert það ef ég hefði verið þar. Hún snertir bara ekki efni þessa frumvarps, en reynt er að tengja saman þær aðstæður sem menn voru með í huga og fjallað var um á þessari ráðstefnu, eftir því sem ég hef heyrt, við efni þessa frumvarps.

Að enginn geti slegið eign sinni á vatnið, er það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vill forðast, og ég hlýt að spyrja: Á hvern hátt verða eignarheimildir landeiganda að vatni aðrar með þessu frumvarpi en hann hefur samkvæmt núgildandi lögum? Hvaða takmörk eru á ráðstöfunarrétti hans á vatni í vatnalögunum frá 1923 sem gilda í dag? Hverjar eru takmarkanirnar? Þetta er mergurinn málsins. Ef menn geta ekki svarað þessari spurningu geta þeir í rauninni ekki haft neitt efnislega við frumvarpið að athuga eins og það er núna.