132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins halda því til haga að þær ræður sem fluttar hafa verið af hálfu stjórnarandstöðunnar hafa margar hverjar verið mjög málefnalegar þar sem menn hafa rökstutt mál sitt afar vel. Það sem er að gerast með þessu frumvarpi er að nýtingarrétti, sem er skilgreindur í vatnalögunum frá 1923, er umbreytt í eignarrétt. Það er mat okkar að í því felist ekki aðeins formbreyting heldur einnig innihaldsbreyting. Við höfum reynt að færa rök fyrir því. Við höfum m.a. vísað í þær umræður sem fóru fram um nákvæmlega sama efni þegar lögin voru sett árið 1923 og menn tókust á um breytingartillögur sem lutu einmitt að þessum þætti.

Hins vegar sagði hv. þingmaður að með þessu frumvarpi væri einkum verið að styrkja náttúruvernd. (Forseti hringir.) Hvers vegna í ósköpunum var þá ekki orðið við tillögum stjórnarandstöðunnar og kröfum um að byrjað yrði (Forseti hringir.) á hinum endanum og samþykkt fyrst og gengið frá lögum um vatnsvernd?

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutíma.)