132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:57]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir talaði um að gera eignarréttinn fullkominn. Ég held að hv. þm. hafi verið að tala um hvernig við gætum útlistað inntak eignarréttarins á fullkominn hátt, ég skildi hana a.m.k. þannig.

Hv. þingmaður hélt því fram að til væri einhver ein rétt leið, jákvæð eða neikvæð, og að við teldum að það væri eina rétta leiðin að skilgreina þetta á þann neikvæða hátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Síðan vísar hv. þingmaður í fræðimann á þessu sviði og ritgerð sem hann hefur skrifað. (KJúl: Í greinargerð frumvarpsins.) Já. Hann færir rök fyrir því að fara ekki þá leið sem stjórnarandstaðan hefur talað fyrir. En ég tel ekki að til sé nein ein fullkomin leið á þessu sviði. Önnur leiðin var farin áður. Nú var tekin sú afstaða að fara hina, m.a. eins og fræðimaðurinn segir í greinargerð með frumvarpinu, vegna þess að það er aldrei hægt að telja réttindin tæmandi upp og þá er nær að segja að einkarétturinn sé ótakmarkaður nema að því leyti sem lög, m.a. ákvæði í vatnalögunum sjálfum, og samningar geta skert þennan ráðstöfunarrétt eigenda. Þetta er hin leiðin. En það sem skiptir öllu máli í þessari umræðu er kannski ekki akkúrat þetta, heldur hvort við erum að breyta þeirri lögskipan sem við höfum búið við frá 1923. Um það hefur deilan staðið. Við segjum að við séum ekki að breyta henni, þetta sé ekki efnisbreyting. En hvor leiðin er farin, fyrir mig persónulega er hvorugt heilagt í því. Þessi leið er skýrari af því að það er aldrei hægt að telja réttindin tæmandi vegna þess, hæstv. forseti, að við sjáum ekki inn í framtíðina.