132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[21:20]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar sérstaklega úr þessum ræðustóli að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir mjög hófstillta og málefnalega ræðu. Ég vil taka undir með honum og leiðarahöfundi Morgunblaðsins að við þurfum bæði í nútíð og framtíð að umgangast vatn af alúð, ég man ekki hvort hv. þingmaður sagði af nærgætni, en a.m.k. af mikilli alúð vegna þess hvers virði vatnið er.

En vegna orða hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að ríkisstjórnin hafi rekið þetta frumvarp svo hart í gegnum þingið, þá hlýt ég að mótmæla því. Þetta er í annað skipti sem frumvarpið er lagt fram á Alþingi og hér er í annan tíma búið að fara yfir dagsetningar hvenær málinu var dreift á þinginu o.s.frv.

En hv. þingmaður sagði áðan: Um þetta var deilt fyrir setningu vatnalaganna og um þetta er deilt núna. Meginmunurinn er sá að þá deildu menn allt að því áratugum saman. Síðan var fenginn ákveðinn fræðimaður til að skrifa frumvarp. Síðan hafa aldrei verið neinar deilur. Þar sem við erum að leggja til óbreytt efnislega sömu réttarreglur áfram er a.m.k. enginn grundvöllur fyrir deilu fræðimanna á þessu sviði. Ekki síðan lögin voru sett 1923.