132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[21:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. Jónína Bjartmarz er ekki fyllilega sjálfri sér samkvæm. Annars vegar tekur hún undir þau orð mín um að mikilvægt sé að ákvæði um stöðu vatns verði tekin upp í stjórnarskrána. Það sé mjög mikilvægt. En hins vegar vill hv. þingmaður aftur reyna að verja að þetta mál sé keyrt í gegnum þingið með svona miklum látum eins og raun ber vitni án þess að fyrst sé tekin afstaða til þess hvaða stöðu vatnið fær í stjórnarskrá.

Fyrir mér er ósköp einfalt hvernig hlutirnir eiga að gerast. Fyrst tökum við ákvörðun um að vatnið fái sína stöðu í stjórnarskránni, að vatnið sé þjóðareign og nýtingarréttur allra sé tryggður. Almannaréttur verði rækilega tryggður í stjórnarskránni. Síðan tökum við lög um vatnsvernd, umhverfislegu hliðina á henni. Vernd á auðlindinni og umgengni við hana til lengri tíma, því að við erum í sjálfu sér bara gestir á jörðinni og höfum engan rétt til að ganga á rétt ókominna kynslóða hvað vatnið, undirstöðu lífsins, varðar. Og síðan í þriðja lagi gætum við tekið fyrir þetta frumvarp, sem hér er verið að böðlast á, sem lýtur að sérgreindum nýtingarrétti. Það er hægt að takast á um það eftir að stjórnarskrárgrunnurinn og vatnsverndargrunnurinn er kominn og þá getum við tekið á nýtingarréttinum. Þannig tel ég, og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að eigi að vinna.