132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Dómur í Baugsmálinu.

[10:44]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra getur ekki látið eins og þetta mál sé ekki málefni þingsins. Sú niðurstaða sem nú liggur fyrir, þó að henni kunni e.t.v. að verða vísað til Hæstaréttar, gefur merki um það að tilbúnaður þessa máls hafi allur verið tiltölulega furðulegur, svo að vægt sé til orða tekið. Þetta mál er búið að kosta skattborgara landsins ómælt fé og í það er búin að fara mikil vinna. Hæstv. dómsmálaráðherra getur ekki komið hér upp og sagt að þetta sé mál sem hann ræði ekki. Hann hefur rætt það á opinberum vettvangi, hann hefur rætt þetta mál áður á heimasíðu sinni og þegar málið gengur honum í mót, eða þeim vilja stjórnvalda að fá dóm í Baugsmálinu og yfir því fólki sem sótt var til saka, segir hæstv. dómsmálaráðherra: Þetta er ekki mál sem ég vil tjá mig um.

Þetta er frekar lítilmannlegt, hæstv. forseti.