132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[10:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Um aldir átti enginn vatnið á Íslandi. Vatnið var aldrei eign nokkurs manns, hvort sem það var uppspretta, rennandi vatn eða stöðuvatn. Kalt vatn var einungis undirorpið eignarrétti á þann hátt að það mátti veiða á vatninu eða í vatninu, en vatnið sjálft var allra.

Með vatnalögunum frá 1923 var vissulega þrengt að afnotarétti almennings en eignarréttur einstaklinga til vatnsins var aldrei annar en óbeinn. Hann var nytjaréttur. Hann var afnotaréttur.

Það er umhugsunarvert að heitt vatn og jarðgufa var einnig um aldir ævinlega talið almannaeign á Íslandi og gilti það einnig um afnotaréttinn. Í Íslandslýsingu Odds Einarssonar, biskups, frá 1593, segir um lindir, með leyfi forseta.

„Því fullvel veit ég að ef afnot slíkra heilsulinda væri á valdi einhverra fjárplógsmanna væru þeir ekki lengi að auka við inntektir sínar.“

Finnur Ingólfsson er ekki biskup — og var ekki þegar hann talaði fyrir lögum sem snúa að vatni hér á Alþingi árið 1998, heldur hæstv. iðnaðarráðherra. Hann sagði þá, með leyfi forseta:

„Grundvallarforsenda þess að koma megi á samræmdu skipulagi í nýtingu auðlinda er að kveða skýrt á um eignarrétt á þeim.“

Hæstv. forseti. Þau lög sem við greiðum nú atkvæði um festa einkaeignarrétt á vatni í sessi. Hagnýtingarrétti á vatni samkvæmt vatnalögunum frá 1923 er með þessum lögum umbreytt í einkaeignarrétt enda segir í upphafsorðum frumvarpsins, að markmið þess sé að kveða skýrt á um eignarhaldi á vatni. Einkaeignarrétturinn er grunnhugsunin í þessum lögum.

Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum við lagt áherslu á að vatn eigi að vera sameign almennings, þjóðfélagsins, eins og hefur verið á Íslandi um aldir. Við teljum að fyrst eigi að setja lög sem tryggja vernd vatnsins og rétt almennings til vatns. Síðan eigi að lögfesta reglur um rétt til nýtingar á vatni. Þetta frumvarp býr í haginn fyrir einkavæðingu á vatni. Þetta er áfangi á þeirri vegferð. Þess vegna greiðum við atkvæði með því að frumvarpinu verði vísað frá.

Verði sú tillaga ekki samþykkt munum við greiða atkvæði gegn frumvarpinu, einstökum greinum þess og í heild sinni. Við munum sitja hjá við gildistökudagsetninguna enda knúin fram af stjórnarandstöðunni. Lögin taka ekki gildi fyrr en hálfu ári eftir alþingiskosningarnar 2007. Þá verður kosið um vatnið. Við munum, ef við fáum til þess stuðning í kosningunum, sjá til að þessi lög verði aldrei að veruleika.