132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[10:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Vatnalögin frá 1923 eru orðin gömul og úr sér gengin þrátt fyrir að þau hafi reynst okkur vel í rúma átta áratugi. Hins vegar er það svo að í ljósi nýrrar tækni og nýrrar þjóðfélagsgerðar er nauðsynlegt að gera breytingar á vatnalögum og í þessu frumvarpi eru þær gerðar fyrst og fremst hvað varðar stjórnsýslu vatnamála.

Ákvæði vatnalaganna sem við greiðum nú atkvæði um varða verulegar breytingar sem m.a. snúa að leyfisveitingum, eignarnámi og öðrum stjórnsýsluháttum enda hefur þjóðfélagið breyst mjög mikið síðan vatnalögin frá 1923 voru sett.

Ráðuneyti hafa orðið til sem ekki voru til við setningu þeirra laga, auk þess sem stofnanir hafa verið settar á fót sem ekki voru til á þeim tíma. Nauðsynlegt er að bregðast við þessum þjóðfélagsbreytingum og það gerir þetta frumvarp.

Í umræðunni hér hefur því verið haldið fram að verið sé að ganga á almannaréttinn og réttur almennings til vatnstöku sé fyrir borð borinn. Þetta er rangt, enda kemur fram í 15. gr. frumvarpsins að vatnstaka til heimilis og búsþarfa gangi framar allri annarri vatnsnýtingu. Þá segir í frumvarpinu að heimilt sé fasteignareiganda að sækja sér vatn til heimilis og búsþarfa á aðra fasteign óski hann þess. Þannig að hinn almenni borgari þarf ekki að hafa þær áhyggjur sem stjórnarandstaðan hefur haft hér uppi varðandi þau atriði þessa máls.

Því hefur einnig verið haldið fram, frú forseti, að með þessu frumvarpi sé verið að einkavæða vatnið. Það er líka rangt og það er rangt hjá formanni Samfylkingarinnar að eignarréttindi yfir vatni séu rangt skilgreind í þessu frumvarpi. Skilgreining á vatni og vatnsréttindum í þessu frumvarpi eru hin sömu og komu fram árið 1923 þegar vatnalögin voru sett.

Það hefur verið sátt um inntak vatns og vatnsréttinda. Það hefur verið sátt um eignarráð fasteignareigenda yfir vatni frá því að þau lög voru sett. Meðal fræðimanna á sviði eignarréttar alla síðustu öld, dómaframkvæmd Hæstaréttar, m.a. í dómum frá 1955, 1963 og frá þessu ári, hefur staðfest þennan skilning sem allir eru sammála, um nema kannski hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem er lögfræðingur en sker sig úr hópi þeirrar stéttar.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Við munum samþykkja þessi lög og greiða þeim atkvæði með þeim breytingum sem fyrir liggja.