132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:03]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hefur mest verið deilt um hvort frumvarp þetta feli einungis í sér formbreytingu en ekki efnisbreytingu. Skýrsla um störf fossanefndar tekur þar af allan vafa. Þar kemur fram að aðaltalsmaður þeirra sem vildu eignarhald á vatni sagði á Alþingi vegna breytingartillögu við 2. gr. vatnalaganna 1923, sem flutt var af þeim sem einungis vildu nýtingarrétt og var samþykkt, að hér væri um að ræða slíka grundvallarbreytingu á frumvarpinu að kippt væri lagastoðum undan einkaeignarrétti á vatni. Taldi hann unnin svo mikil spjöll á ákvæði 2. gr. frumvarpsins að það skilgreindi ekki lengur eignarrétt landeiganda á vatni. Þannig voru vatnalögin afgreidd 1923.

Nú hafa stjórnarflokkarnir fært ákvæði 1., 2. og 4. gr. til þess horfs sem Sveinn Ólafsson frá Firði vildi um eignarhald á vatni 1923 sem komið var í veg fyrir með breytingartillögu Bjarna Jónssonar frá Vogi og Jóns Þorlákssonar árið 1923. Við því segi ég nei.