132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:09]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég sagði við upphaf þessarar umræðu að fyrr skyldi ég dauður liggja en samþykkja eignarhald á vatni á Íslandi. Það hvarflar ekki að mér, ekki eitt augnablik, að gleðja stjórnarliða með því að fara að geispa golunni í þessum sal í dag.

Ég ætla að láta loga á rauðu í allri atkvæðagreiðslunni hér á eftir sem og félagar mínir í Frjálslynda flokknum. Afstaða okkar í þessu máli hefur ekkert breyst. Sú sannfæring okkar hefur hins vegar styrkst að þessi lög eru meingölluð og ég hygg að sá illi grunur hafi líka læðst að mörgum stjórnarliðum. Við fundum það í umræðunni að þeir vita það innst inni að þetta frumvarp er engan veginn tækt til að verða að lögum. Það þarf að skoða þessi mál miklu betur áður en það tekur gildi og því er það mikill sigur sem stjórnarandstaðan er að vinna í dag með því að gildistöku laganna hafi verið frestað fram yfir næstu kosningar.