132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:12]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér takast á, eins og á fyrstu dögum liðinnar aldar, annars vegar allsherjarstefna þar sem hagur almennings, hagur samfélagsins er hafður í heiðri og hins vegar séreignarstefna með þeirri gömlu og nýju kreddu að samskipti á markaði séu inntak mannlegrar tilveru. Ég er allsherjarsinni í þessum málum og lít með stolti til frumherjanna á fyrri hluta 20. aldar og mér finnst merkilegt að ýmsir þeirra skuli hafa tilheyrt þeim flokki sem enn gengur undir nafninu Framsóknarflokkur. Það voru sannarlega framsóknarmenn sem stóðu fyrir allsherjarstefnunni á þeim tíma. Það eru framsóknarmenn ekki lengur heldur ætti sá flokkur að heita afturhaldsflokkur og sé hans skömm lengi uppi. Ég segi nei.