132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:15]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég lít á þessi átök um vatnið með sama hætti og átökin um aðrar auðlindir. Átökin í íslenskum stjórnmálum síðustu áratugi hafa snúist um yfirráð og eignarhald á auðlindum. Ég tel að þótt engin stökkbreyting verði með samþykkt þessara laga þá snúist þau samt um eftirfarandi grundvallaratriði. Verið er að flytja nytjarétt á vatni yfir í séreign. Ég nálgast þetta með þessum hætti. Ef það er gert með vatn, hvenær verður það þá gert með fiskinn? Og hvenær með aðrar auðlindir?

Ég tel að allar þessar auðlindir eigi að vera sameign þjóðarinnar, eigi að vera það sem fossanefndin á sínum tíma kallaði landsgæði. Ég er þeirrar skoðunar að kveða eigi á um það alveg skýrt í stjórnarskrá að gæði af þessum toga, eins og fiskur og vatn og ýmislegt annað eigi að vera sameign þjóðarinnar en nýtingarrétturinn á að vera útfærður samkvæmt lögum. Það er þess vegna sem ég er andstæður þessu ákvæði úr lögunum í heild.