132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[11:18]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég hefði viljað óska þess að hæstv. landbúnaðarráðherra í sinni mögnuðu ræðu hefði klárað það sem hann hefði átt að segja. (Gripið fram í.) Það geta allir fengið vatn, en það vantaði — gegn greiðslu. (Iðnrh: Þetta er ekki í umræðunni.)

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson las upp áðan um það sem hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra sagði ber auðvitað að þakka fyrir, hreinskilni Finns Ingólfssonar sem talar um að koma þurfi samræmdu skipulagi á nýtingu auðlinda og kveða skýrt á um eignarrétt á þeim. Þetta er miklu skýrar talað en B-deild Sjálfstæðisflokksins talar um í dag með hæstv. iðnaðarráðherra í broddi fylkingar.

Auðvitað er verið að einkavæða vatnið. Það er ekkert annað. Það er aumt hlutverk framsóknarmanna að ganga þessa göngu með sjálfstæðismönnunum. En sjálfstæðismenn, og það er athyglisvert og rétt að vekja athygli á því, tala lítið um þetta en þakka ábyggilega fyrir það á göngum hér á eftir.