132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[11:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Okkur hafa verið færð mikil tíðindi og söguleg því að ekki verður annað skilið en að Bandaríkjamenn séu að boða brottför herliðs síns frá Íslandi eftir rúmlega hálfrar aldar hersetu í landinu.

Auðvitað er gleðilegt að sá tími kunni að vera að renna upp að Ísland verði án erlends hers. Þetta hlýtur að leiða til þess að herstöðinni á Miðnesheiði verði lokað fyrir fullt og allt, Keflavíkursamningnum frá 1951 verði sagt upp og því lýst yfir að Ísland standi utan hernaðarbandalaga. Allra hernaðarbandalaga. Það er mikilvægt að menn tali núna hreint út og tæpitungulaust um þetta efni.

Þetta er sú krafa sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fylkjum okkur um. Við teljum að besta leiðin fyrir Íslendinga til að láta gott af sér leiða í heiminum, jafnframt því sem við tryggjum öryggi lands okkar og þjóðar, sé að fylgja sanngjarnri og réttlátri stefnu á alþjóðavettvangi en standa sem fjærst herskáum hernaðarveldum á borð við Bandaríkin.

Þótt það hafi lengi verið fyrirsjáanlegt að Bandaríkjamenn mundu draga herlið sitt frá Íslandi vekur engu að síður athygli með hvaða hætti þetta ber að. Það verður ekki annað sagt en að framkoma Bandaríkjastjórnar gagnvart íslenskum stjórnvöldum sé ótrúlega óskammfeilin og niðurlægjandi. Það eru ekki nema örfáar vikur síðan utanríkisráðherra kom frá Bandaríkjunum úr viðræðum um framkvæmd varnarsamningsins, sem svo er nefndur, og var svo að skilja að þær viðræður væru í eðlilegum farvegi. Þá gerist það að Bandaríkjastjórn lýsir því einhliða yfir að hún hyggist fjarlægja herþotur og þyrlur frá Íslandi næsta haust. Þetta gerist með einu símtali og í morgun færa fjölmiðlar okkur þær fréttir að Bandaríkjamenn hafi nú áhuga á því að hefja viðræður við íslensku ríkisstjórnina um framkvæmd varnarsamningsins, sem hún kallar svo.

Ég spyr: Getur það verið að hæstv. utanríkisráðherra Geir H. Haarde hafi setið einhvern allt annan fund en hann hélt að hann sæti í Washington ekki alls fyrir löngu?

Hæstv. forseti. Þetta færir okkur heim sanninn um að Bandaríkjastjórn hefur ekki og hefur aldrei haft herlið á Íslandi nema til að þjóna eigin hagsmunum. Þegar það hentar bandarískum hernaðarhagsmunum eru Bandaríkjamenn farnir og hirða ekki um lágmarkskurteisi við íslensk stjórnvöld. Verður þó ekki annað sagt en að hér sitji nú á valdastólum menn sem hafa þjónað þeim vel, gert Íslendinga samseka í einhverjum mestu voðaverkum síðari ára.

Það sem máli skiptir nú er að ganga á markvissan og myndarlegan hátt til þess verks að yfirtaka alla starfsemi sem tengist flugvellinum, öryggisþáttum og björgunarviðbúnaði og stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Um þetta þurfa Íslendingar nú að fylkja sér.

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur á þessu yfirstandandi þingi, og á síðasta þingi einnig, lagt fram þingsályktunartillögur sem ganga í þá átt. Við höfum viljað að kannaðir yrðu rækilega möguleikar á því að auka hvers kyns borgaralega atvinnustarfsemi í tengslum við flugvöllinn og gera tillögur um aðgerðir í því skyni. Við höfum lagt áherslu á að gott samstarf verði haft við heimamenn á Suðurnesjum í slíku starfi.

Síðastliðin 15 ár hafa bandarísk stjórnvöld dregið mjög úr umsvifum í rekstri herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Áhugi bandarískra hermálayfirvalda á að draga enn frekar saman seglin og leggja herstöðina jafnvel niður hefur komið skýrt fram á allra síðustu árum. Slíkt þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi þess hve mikið hefur dregið úr spennu í okkar heimshluta frá því sem var undir lok 9. áratugarins. Í reynd er staðan sú að herinn hefur verið að fara í áföngum á undanförnum árum og hefur ekkert bent til annars en að sú þróun héldi áfram og nú þekkjum við hvað gerst hefur.

Hermönnum á Keflavíkurflugvelli hefur fækkað verulega á síðustu 15 árum, um 56%. Þeir voru yfir 3.000 talsins í byrjun 10. áratugarins en eru núna um 1.500. Sama gildir um Íslendinga sem starfa hjá Bandaríkjamönnum. Í byrjun 10. áratugarins voru þeir yfir 1.000 en eru núna á sjöunda hundraðið.

Það sem er gleðilegt er að við þá fækkun sem orðið hefur hefur ekki skapast atvinnuleysi. Á allra síðustu árum hefur fækkun í störfum Íslendinga hjá hernum eða í starfsemi sem honum tengist dregist saman um sem nemur 535 störfum. Á sama tíma hafa umsvif í tengslum við flugstöðina í Keflavík aukist. Það er sýnt að á komandi árum verður framhald á þeirri þróun. Við eigum að sameinast um að horfa til annarra þátta einnig sem styrkja atvinnulífið á þessum slóðum.

Ég lít ekki svo á, og það gerum við ekki í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að þetta sé áfall í neinum skilningi. Þetta eru gleðileg tíðindi fyrir Ísland og við eigum að líta á þetta sem sóknarfæri til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Við eigum að taka mjög alvarlega þann vanda sem fjöldi einstaklinga og fjölskyldna kann að standa frammi fyrir á næstu mánuðum og missirum vegna atvinnumissis. Hvað þetta varðar eigum við að standa einhuga saman.

Við eigum einnig að leggja áherslu á að taka allt sem lýtur að öryggi landsmanna föstum tökum. Íslensk stjórnvöld hafa að þessu leyti hætt að berja höfðinu við steininn eins og þau gerðu lengi vel. Við fögnuðum því fyrir okkar leyti þegar því var lýst yfir af hálfu hæstv. utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í byrjun febrúar að til stæði að Íslendingar yfirtækju rekstur flugvallarins og þyrlustarfseminnar. Við fögnuðum því.

Hæstv. forseti. Hvað öryggisþáttinn varðar hef ég aldrei skilið, og við höfum átt erfitt með að fá botn í það, hvernig öryggi okkar yrði tryggt með fjórum eða fimm herþotum Bandaríkjastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Við höfum aldrei fengið svör við því, þótt eftir væri leitað, hvaðan Íslendingar búist við árás úr lofti. Er það frá Evrópu eða er það frá einhverjum öðrum heimshlutum?

Sú hætta sem steðjar að Íslendingum, eins og öllum þjóðum í heiminum í dag, er af hryðjuverkastarfsemi. Þar aftur ítreka ég það sem ég áður sagði, að við tryggjum öryggi Íslands best með því að fylgja eftir á alþjóðavettvangi sanngjarnri og réttlátri stefnu.