132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[12:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það liggur nú ljóst fyrir að Bandaríkjamenn ætla sér að draga stórlega úr varnarviðbúnaði hér á landi. Við hörmum þessa ákvörðun þeirra og við hörmum það jafnframt hvað hana ber skjótt að og við erum ósáttir við það hvernig að henni er staðið.

Það kemur hins vegar skýrt fram hjá Bandaríkjastjórn að hún hyggst virða varnarsamning ríkjanna þó að vörnum landsins verði hagað með öðrum hætti. Við þessar aðstæður er mikilvægt að horfa fram á veg.

Fyrsta spurningin er: Eigum við að byggja áfram á varnarsamningnum við Bandaríkin og aðildinni að Atlantshafsbandalaginu sem aðalatriði í okkar öryggismálum?

Ég tók eftir því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi varnarsamninginn ekki á nafn, hún nefndi aðildina að Atlantshafsbandalaginu ekki á nafn. Ég hef hingað til haldið að það væri samdóma álit — það var a.m.k. samdóma álit Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks — að það bæri að byggja á þessum hornsteinum. Nú virðist vera orðin stefnubreyting þar á. Á þessum grundvelli hlýtur það að vera fyrsta skrefið að ganga til viðræðna við Bandaríkjamenn til að tryggja megi áfram lágmarks sýnilegar varnir hér á landi sem feli í sér fælingarmátt. Það hefur aldrei verið sagt frá árinu 1993 af okkar hálfu, og það var heldur ekki sagt af hálfu Alþýðuflokksins á þeim tíma, að það væri eina leiðin til þess að tryggja sýnilegan fælingarmátt hér á landi. Það hefur einfaldlega ekki komist niðurstaða í það með hvaða hætti það yrði gert. Það er mikilvægt að hraða þessum viðræðum sem mest og ég mun í dag skrifa Bandaríkjaforseta bréf og óska eftir nánari útlistun af hálfu Bandaríkjastjórnar og hugmyndum Bandaríkjanna um framtíðarvarnir Íslands. Þeir hafa lengi haldið því fram að það væri hægt að tryggja þær með öðrum hætti en hafa aldrei kveðið skýrt á um það.

Það liggur fyrir að ákvörðun Bandaríkjastjórnar mun fela í sér ákveðin þáttaskil í utanríkismálum þjóðarinnar. Hún snertir ekki einungis Ísland, hún snertir líka Atlantshafsbandalagið og öryggi á Atlantshafinu. Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna er hluti af varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins og það ætti öllum að vera ljóst. Ég átti þess vegna í þessu samhengi samtal snemma í morgun við framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og gerði honum grein fyrir stöðu mála. Framkvæmdastjórinn mun á mánudagsmorgun eiga fund með Bandaríkjaforseta og hann mun að minni beiðni taka þetta mál upp, enda snertir það ekki eingöngu Íslendinga. Það snertir allt Atlantshafsbandalagið. Því er eðlilegt að við ræðum þetta mál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og hann gerir sér mjög vel ljósa grein fyrir því um hve stórt mál er hér að ræða enda hef ég áður nokkrum sinnum rætt það við hann á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Það er jafnframt ljóst, þegar þetta liggur fyrir, að þessi ákvörðun mun hafa mikil áhrif innan lands, ekki eingöngu í sambandi við okkar öryggismál heldur jafnframt á Keflavíkurflugvöll og atvinnulíf á Suðurnesjum enda er varnarliðið stærsti vinnuveitandinn á því svæði. Það hefur komið fram í þessari umræðu að rúmlega 600 manns vinna hjá varnarliðinu, Íslendingar, og jafnframt margir í verktakastarfsemi. Ég hef í morgun rætt við forustumenn stærstu verkalýðsfélaganna á Suðurnesjum og gert þeim grein fyrir stöðu mála og ég hef jafnframt gert þeim grein fyrir þeim eindregna vilja ríkisstjórnarinnar til tafarlauss samstarfs um að vinna að úrlausn þessara mála. Ég hef jafnframt rætt við bæjarstjórann í Reykjanesbæ og við höfum ákveðið fund með okkur utanríkisráðherra um þessi mál til að ræða þessa alvarlegu stöðu og við munum jafnframt gera það gagnvart öðrum bæjarfélögum á Suðurnesjum.

Það sem mestu máli skiptir við þessar aðstæður er að horfa til framtíðar og huga að leiðum í þeim vanda sem blasir við. Þó að við höfum ekki gert ráð fyrir að þetta bæri að með þessum hætti höfum við verið þess lengi meðvitandi að til þessa kynni að koma. Að þessu verki þurfa margir að vinna, ríkisstjórnin, aðilar á Suðurnesjum og að sjálfsögðu Alþingi. Fram undan er mikið starf sem lýtur að því með hvaða hætti verði brugðist við vegna þessara ástæðna. Það varðar rekstur flugvallarins, slökkvilið og margvíslega þjónustu en við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því að það eru mörg tækifæri sem blasa við um nýtingu Keflavíkurflugvallar. Sem betur fer er atvinnuástandið gott í landinu og menn hafa unnið að margvíslegri uppbyggingu á því svæði. Sumt af því hefur verið gert í andstöðu við aðila hér á Alþingi en nú er mikilvægt að menn standi sem best saman og hugi að öllum möguleikum sem bjóðast.

Við þurfum að halda vöku okkar með opnum huga í þessu máli og tryggja öryggi landsins til frambúðar. En ég vil endurtaka það að við eigum að gera það áfram á grundvelli varnarsamningsins og á grundvelli aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu. Það hefur verið grundvallaratriði í utanríkisstefnu Íslands um áratugaskeið og við eigum ekki að hverfa frá því þótt ég hafi skilið formann Samfylkingarinnar þannig að það væri það sem hún vildi gera.