132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[12:22]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Með þeim atburði sem gerðist í gær, þegar tilkynnt var af hálfu Bandaríkjastjórnar að þyrlur og þotur hyrfu af Keflavíkurflugvelli, lauk ferli sem hófst í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna árið 1994 þegar þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, skrifaði undir samning við William Perry um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli. Þetta samkomulag var síðan endurnýjað árið 1996 og átti að gilda til 2001, en frá 2001 hefur ekki tekist að ljúka viðræðum á milli ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna fyrr en á þennan veg sem gerðist í gær með þeim þáttaskilum að Bandaríkjastjórn segir: Við höfum ekki tök á því að hafa hér viðvarandi orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli og munum flytja þær á brott og einnig þyrlusveitina. Þetta er ekkert ferli sem kemur á óvart. Þetta hefur staðið yfir frá 1994. Ég gagnrýndi það á sínum tíma að menn væru að skrifa undir samkomulag eins og þá var gert, tímabundið samkomulag um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli, og taldi það brjóta í bága við varnarsamninginn og þær hefðir sem hefðu verið í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Þegar rætt er um þetta mál án þess að geta um varnarsamninginn, eins og formaður Samfylkingarinnar gerði, eða aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu þá er verið að hlaupa fram hjá meginþættinum í samskiptum okkar og Bandaríkjanna. Það er rétt að lesa upp í þessum umræðum innganginn að varnarsamningnum frá 1951 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður-Atlantshafssamningsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum.“

Þetta er grundvöllurinn að varnarsamningnum og er enn í gildi. Þetta grundvallarsjónarmið ræður enn í samskiptum okkar og Bandaríkjanna eins og fram kom í yfirlýsingu þeirra í gær og eins og staðfest hefur verið af hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Það er þetta sem við verðum að leggja til grundvallar þegar við ræðum um okkar öryggismál, að þessi samningur er enn í gildi. Spurningin er nú hvernig á að framkvæma hann við núverandi aðstæður. Það má segja að samningurinn hafi leitt til mestu hernaðaruppbyggingar á Íslandi á árinu 1985. Þá var spennan mest á norðurslóðum og þá var viðbúnaðurinn mestur á Keflavíkurflugvelli. Frá 1985 tók sú uppbygging að dragast saman og síðan urðu náttúrlega þáttaskil þegar Sovétríkin hurfu af vettvangi og aðstaða í öryggismálum heimsins breyttist.

Það er rangt að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi frá þeim tíma látið reka á reiðanum og ekki mótað sér stefnu eða skoðanir á því hvað ætti að gera í utanríkis- og öryggismálum. Það hafa verið samdar tvær skýrslur. Fyrri skýrslan kom út í mars 1993, Öryggis- og varnarmál Íslands. Þar er lagt á ráðin um það hvað Íslendingar eiga að gera til að tryggja öryggi sitt við þær aðstæður sem skapast höfðu í heiminum. Þar eru tíunduð ákveðin grundvallaratriði sem þarf að taka mið af og þau atriði eru öll í fullu gildi enn þrátt fyrir að þessi breyting verði á fyrirkomulagi framkvæmdar varnarsamningsins á Keflavíkurflugvelli. Síðan var gerð greinargerð um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót á vegum utanríkisráðuneytisins, sem kom út árið 1999. Þar eru áréttuð þau sjónarmið sem komu í skýrslunni 1993 og síðan lagt á ráðin um það hvað gera þurfi til að tryggja öryggi Íslands við núverandi aðstæður. Ég tel að það hafi ekkert breyst í grundvallaratriðum frá 1999 að því er þetta varðar. Ef menn lesa þessa skýrslu, og þær niðurstöður sem þar eru kynntar, og sjá hvernig staðið hefur verið að framkvæmd stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum frá þeim tíma þá sjá þeir að í stórum dráttum hefur verið fylgt þeim meginsjónarmiðum sem kynnt voru þá og ríkisstjórnin hefur fylgt síðan. Að halda því fram að af hálfu stjórnvalda hafi ekki verið staðið að því að móta hér stefnu í samræmi við breyttar aðstæður er algerlega rangt. Síðan hefur það gerst, eins og þingmenn vita, að hér á þingi hefur á undanförnum missirum verið rætt um ýmis mál sem snerta okkar öryggisþætti og ég hef tekið þátt í þeim umræðum, m.a. vegna breytinga á skipulagi lögreglunnar með því að efla sérsveit lögreglunnar. Þá komu upp þingmenn og töldu að ég væri að leggja drög að því að stofna íslenskan her og töldu að það mál — það var í mars árið 2004, þá stóðu hér þingmenn, sérstaklega frá Samfylkingunni, og héldu því fram að með því að breyta skipulagi lögreglunnar á þann veg sem gert var með sérsveitinni væri ég að stíga fyrstu skrefin í því að stofna íslenskan her, sem að sjálfsögðu er rangt en sýnir að íslensk stjórnvöld hafa verið hér að laga öryggismál að þeim kröfum sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.

Ég mun koma fram með frumvarp, væntanlega á þessu þingi, um Landhelgisgæsluna, ný lög um Landhelgisgæsluna þar sem tekið verður á stöðu hennar miðað við núverandi aðstæður. Ég heyri það á hv. þingmönnum, sem hér taka til máls, að þeir telja að Landhelgisgæslan hafi nýju og meira hlutverki að gegna þegar litið er til þeirra breytinga sem eru að verða. Í þessari skýrslu frá 1999 segir, með leyfi forseta:

„Kanna þarf möguleika á hagnýtri þátttöku Íslands í norrænum friðargæslu- og björgunaræfingum með aðild Eystrasaltsríkjanna, en slíkar æfingar eiga sér nú stað undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Sérstaklega þyrfti að athuga hvort til greina kæmi að varðskip Landhelgisgæslunnar, eitt eða fleiri, tækju reglulega þátt í slíkum æfingum.“

Þetta er sett fram árið 1999 og þetta eru sjónarmið sem við þurfum að huga að nú ekki síður en þá. Það er fjallað um fleiri slík atriði þegar menn eru að ræða þessi mál og það er í þessum anda sem síðan hefur verið starfað og stefnunni hrundið í framkvæmd.

Það er líka verið að endurskoða lögin um almannavarnir. Almannavarnir skipta máli þegar litið er til þeirra aðstæðna sem við búum við núna og það munu koma fram tillögur um breytingar á skipulagi almannavarna, annaðhvort nú í vor eða næsta haust, þar sem tekið er mið af nýjum aðstæðum og lagt á ráðin um það hvernig við eigum að standa betur að okkar almannavörnum miðað við núverandi aðstæður. Alþingi er að fjalla núna um lög um nýskipan lögreglumála þar sem verið er að stækka liðsheildir lögreglunnar, verið að breyta skipulagi lögreglunnar, m.a. í kringum Keflavíkurflugvöll, styrkja lögreglustjórn á Suðurnesjum og efla lögreglustjórn þar til að takast á við ný verkefni í ljósi breyttra aðstæðna.

Ég minni á það að á undanförnum árum hefur líka verið unnið að því að koma upp öflugri viðbragðs-, stjórnunar- og samhæfingarmiðstöð í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð hér í Reykjavík. Íslendingar standa mjög vel að vígi þegar litið er til þess að huga að viðbrögðum og samhæfingu og stjórnun á hættutímum og þegar taka þarf á málum sem snerta öryggi borgaranna.

Það sem við erum að fjalla um núna er það hvernig við ætlum að haga framtíðarsamskiptum okkar við Bandaríkjamenn í ljósi þess sem okkur hefur verið tilkynnt um, þ.e. það að þeir treysti sér ekki til að hafa orrustuþotur og þessa þyrlubjörgunarsveit áfram á Keflavíkurflugvelli.

Af hálfu Landhelgisgæslunnar hefur verið lagt mat á það hvað þarf að gera til að fylla það skarð. Þær hugmyndir verða að sjálfsögðu ræddar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og hér á Alþingi því að allt kostar þetta fé og líta þarf til fjárfestinga. Ég er sammála því sem kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, það á að líta til þess hvaða samkomulagi er hægt að ná við bandarísk stjórnvöld varðandi þessa þætti þegar farið er í endurnýjun á þyrlukosti Landhelgisgæslunnar sem er nauðsynleg. En við fyllum t.d. aldrei eitt skarð sem myndast vegna þessa, við munum ekki vera hér með þyrlusveit sem getur notað sér eldsneytisvélar eins og hafa verið á Keflavíkurflugvelli.

Bandaríkjamenn eru eina þjóðin í heiminum sem rekur björgunarstarfsemi og nýtur stuðnings frá eldsneytisflugvélum og getur þess vegna sent þyrlur sínar til björgunarstarfa í stærri radíus frá heimahöfn en ella væri. Það eru svona þættir sem við lítum til en við höfum ekki burði til þess að reka slíka flugvél og munum ekki hanna björgunarstörf okkar með það í huga, heldur huga að því við endurskipulagningu á skipum Landhelgisgæslunnar að þyrlur geti fengið eldsneyti frá þeim skipum og verði búnar með þeim hætti að skipin geti komið þar til aðstoðar.

Það hefur komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra á fundum sem hann hefur átt með starfsbræðrum sínum í Noregi og Danmörku undanfarið að menn hafi fylgst náið með því sem er að gerast hér í öryggis- og varnarmálum okkar. Ég tel skynsamlegt að ganga frá formlegum samningi við Dani um samstarf við öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi. Danir halda úti skipaflota og eftirliti á svæðinu frá Færeyjum til Grænlands og við eigum að ganga frá formlegum samningi við dönsk stjórnvöld um það hvernig samstarfi okkar og þeirra er háttað, m.a. til að auðvelda öll samskipti Landhelgisgæslunnar og dönsku flotastjórnarinnar og nýta þau tæki og þann mannafla sem best sem þar er til reiðu.

Það eru fleiri slík atriði sem við eigum að líta til þegar við veltum fyrir okkur öryggi á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Það er eitt viðfangsefni sem við gætum átt samstarf við aðrar þjóðir um og við eigum hiklaust að ganga til slíks samstarfs við nágrannaþjóðir okkar.

Ég tel að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að við því sé að búast að Evrópuþjóðir taki að sér að hlaupa í skarðið fyrir Bandaríkjamenn. Í fyrsta lagi tel ég það ónauðsynlegt vegna þess að varnarsamningurinn er áfram í gildi. Varnarsamningurinn byggist á ákveðnum forsendum, tilmælum frá Atlantshafsbandalagsríkjunum um að Bandaríkjamenn og Íslendingar taki höndum saman um að tryggja öryggi hér á þessum slóðum, fyrir utan það að Evrópuþjóðir NATO ráða ekki yfir neinu því afli og ekki neinu sameiginlegu afli sem getur komið í staðinn fyrir Bandaríkjamenn hér á landi. Ef það er þjóð í nágrenni okkar sem hefur sérstakan áhuga á öryggismálum okkar, fyrir utan Norðmenn og Dani sem ég hef þegar nefnt, er það sú breska. Spurning er hvort við eigum að taka upp nánara samband við Breta. Það hefur verið okkur erfitt í gegnum síðustu áratugina, m.a. vegna landhelgisdeilnanna og þorskastríðanna. Það hefur ekki verið upp á það að hlaupa að menn hafi yfirleitt rætt um það hér á landi að hafa samstarf á milli Íslendinga og breska flotans. Þvert á móti hefur verið spenna í samskiptum okkar. Í ár eru 30 ár frá því að þeim deilum lauk og það stendur m.a. til að senda varðskipið Óðin til Hull í sumar til að minnast þeirra tímamóta og taka þátt í ákveðnum athöfnum þar í tilefni af þessum tímamótum og öðrum.

Ég tel unnt að efla samskipti við Breta. Þeir hafa sérstakra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi. Þeir hafa líka sent eftirlitsflugvélar hingað reglulega um árabil, og einnig Hollendingar. Sjálfsagt er að líta til þess en ég er þeirrar skoðunar að engin Evrópuþjóð komi í staðinn fyrir Bandaríkjamenn þegar litið er til þessa tvíhliða varnarsamstarfs sem við höfum átt við þá núna í 55 ár á grundvelli samningsins.

Ég tel að þetta sé viðfangsefni sem við eigum að leysa og horfa til framtíðar. Við eigum sjálf að axla meiri ábyrgð á öryggi okkar og óhikað að ræða um það. Við eigum ekki að hafa einhver bannorð í umræðunni um öryggismál okkar. Við eigum að ræða um alla þætti þeirra og hvar við getum látið að okkur kveða. Við eigum að taka af festu og ábyrgð á þeim viðfangsefnum sem við blasa án þess að halda að hér hafi orðið þau þáttaskil að nú sé tími til kominn að leggja árar í bát.