132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:58]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór að kannast við þá skoðun að þetta frumvarp mundi auka rétt bænda, þó að hann væri að spyrja um það hér í gær. Ég tel að hægt sé að halda því alveg hiklaust fram að þetta muni auka rétt þeirra sem eiga jarðir. Það verður skýlaus eignarréttur á vatni sem var ekki áður, hefur aldrei verið og var tekin sérstök ákvörðun um það með setningu vatnalaga að skyldi ekki vera.

Það er hins vegar alveg skýrt í vatnalögum hvaða hagnýtingarrétt menn hafi samkvæmt þeim. Þannig viljum við hafa þetta og endurskoðun vatnalaga átti auðvitað að verða á nákvæmlega sams konar grundvelli, þ.e. með að gefa mönnum hagnýtingarréttinn í lagagreinum eins og áður var. Það var engin þörf á að fara þessa leið við að skilgreina nýtingarrétt manna á vatni.

Við stöndum frammi fyrir þessari breytingu. Hún er að mínu viti ákaflega mikilvæg. Það mun örugglega sýna sig í framtíðinni, ef okkur sem erum á móti þessu tekst ekki að koma í veg fyrir að þetta verði að lögum, eins og hugur okkar stendur til og ég sannarlega trúi á að muni gerast og hef meiri trú á eftir því sem lengra líður. Vegna þess að mér sýnist á öllu að umræðan hér um vatnalögin núna hafi fært okkur mörg skref í áttina til þess að fjallað verði um þessi mikilvægu mál í aðdraganda næstu kosninga. Þá verður talað um allar auðlindir. Þá verður talað um einkavæðingu. Þá þora menn vonandi að fara að kannast við hvað þeir eru að gera með einkavæðingu auðlinda á Íslandi þó að þeir hafi ekki þorað að segja það upphátt fram að þessu og dregið sig undir sauðargæruna og haldið sig þar. Þá verða þeir dregnir undan henni þegar sú umræða fer í gang. (PHB: Er sauðargæran rök í málinu?)