132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál nú við 3. umr. þessa máls. Við eigum eftir að ræða það mjög vel og ítarlega í aðdraganda næstu kosninga því það er ljóst, eins og hér hefur komið fram við umræðuna, að það verður kosið um vatnið í næstu alþingiskosningum.

Það hefur verið haft á orði við umræðuna að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji þjóðnýta vatnið eins og sagt er. Hið rétta í þessu máli er að við viljum hafa þann hátt á sem hafður var á frá upphafi Íslandsbyggðar. Vatnið var almannaréttur. Það átti enginn vatnið, það átti enginn uppspretturnar, það átti enginn rennandi vatn, það átti enginn stöðuvötnin en menn höfðu hins vegar rétt til að nýta sér það, að veiða á vötnunum og í ánum og nýta sér vatnið á ýmsa lund.

Við 2. umr. eða 1. vitnaði ég í ýmsar sögulegar staðreyndir máli mínu til stuðnings. Ég gerði það við atkvæðaskýringu fyrr í dag. Þá vitnaði ég í Íslandslýsingu Odds Einarssonar frá 1593. Við umræðuna fyrr hef ég vitnað í gamlar lagaheimildir, Grágás og Jónsbók, ég hef vísað í Sturlungu, í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þar sem fjallað er um eignarrétt á landi og gerð grein fyrir dýrleika jarða án þess að nokkru sinni væri vísað til vatns eða annarra hlunninda sem tengjast vatni sem eignarréttindi. Þvert á móti hefur það jafnan verið skilgreint sem almannaréttur. Það sem breytist núna með þessum lögum er að vatnalögunum frá 1923, sem nú eru tekin til uppstokkunar, er breytt á þá lund að afnotaréttur eða reglur sem kveðið var á um í vatnalögunum um afnot af vatni er umbreytt yfir í eignarrétt. Það er grunnhugsunin í þessu frumvarpi. En eins og hér hefur margoft komið fram eru upphafsorð frumvarpsins, með leyfi forseta: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni …“

Við höfum jafnan sagt í stjórnarandstöðunni þegar talað hefur verið um einkavæðingu að með þessum lögum er verið að búa í haginn fyrir einkavæðingu á vatni. Við höfum m.a. vísað í ummæli ráðherra fyrr og nú, þar á meðal ummæli Finns Ingólfssonar frá 1998 þar sem hann segir réttilega að grundvallarforsenda þess, þ.e. út frá hans sjónarmiði, að koma megi á samræmdu skipulagi um nýtingu auðlinda sé að kveða skýrt á um eignarrétt á þeim auðlindum. (Iðnrh.: Er þetta í „fæl“?) Ég er með þetta í „fæl“, hæstv. iðnaðarráðherra, sem ég vara við að hafa þetta í flimtingum, vegna þess að orð hæstv. ráðherra í minn garð og okkar vinstri grænna þar sem hún ber ranglega á okkur að hafa falsað ummæli hennar, þeirri umræðu er ekki lokið í þingsal, ég fullvissa hæstv. ráðherra um það. (Gripið fram í.) Já, það er mjög gott, finnst hæstv. ráðherra, en það er nokkuð sem ég tek mjög alvarlega og mun gera kröfu til þingsins að gera slíkt hið sama. Ég mundi fara varlega í mikil hlátrasköll út af þessu máli.

Með öðrum orðum: Það sem er að gerast í þessu máli er að verið er að breyta afnotarétti yfir í eignarrétt og það eru skýr ákvæði um það í þessum lögum. Ég var að vísa í ummæli hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra þar sem hann lýsir þessari nauðsyn sem undanfara hagnýtingar á vatninu. Nú er þess að geta að að sjálfsögðu viljum við hagnýta okkur vatnið á ýmsan hátt en við viljum byrja á öðrum enda. Við viljum byrja á þeim endanum að tryggja almannaréttinn, tryggja umhverfisverndina og setja að því búnu reglur um heimildir til nýtingar á vatninu. Þetta er sú forgangsröðun sem við viljum hafa á og við viljum að allir þessir lagabálkar sem snúa að vatninu verði settir með þessa heildstæðu sýn í huga.

Annað sem er að gerast með þessu lagafrumvarpi er einnig grundvallarbreyting. Í vatnalögunum frá 1923 er kveðið á um nýtingu á vatni, á það sem lögfræðingar kalla jákvæðan hátt. Það er skilgreint í hverju réttindin felast og þau eru talin upp. Nú er hins vegar kveðið á um eignarhaldið, á það sem lögfræðingar kalla neikvæðan hátt og það þýðir í grunninn að viðkomandi á vatnið, sé ekki kveðið á um annað í lögum. Grunnreglan er sem sé eignarréttur á vatninu og síðan eru því sett ýmis skilyrði í lögunum.

Í þessu er fólgin grundvallarbreyting og sannast sagna skil ég ekki þá lögfræðinga, þeir eru ekki ýkja margir, sem hafa gengið fram á sjónarsviðið að undanförnu og tjáð sig á þann hátt sem þeir gera. Ég hef vakið athygli á því við umræðuna að þeir sem einkum hafa haft sig í frammi eru verktakar ríkisstjórnarinnar í þessu máli og við skulum ekki gleyma því að maður á borð við Karl Axelsson sem talar með lítilsvirðingu um málflutning okkar og vísar til hans sem storms í vatnsglasi, tal út í loftið, hann hefur verið í verkum fyrir ríkisstjórnina í tengslum við þetta mál. Og ég vil minna á að lögfræðingar eru ekki saklausir af því að hafa skoðanir á málum, og í sjálfu sér er ekkert við það að athuga.

En muna menn umræðuna sumarið 2004 um fjölmiðlalögin og muna menn lögfræðingaskýrslurnar sem þá voru reiddar fram (Gripið fram í: Skiptar skoðanir.) þar sem voru vissulega skiptar skoðanir? En þar var reidd fram skýrsla frá starfshópi sem ríkisstjórnin skipaði og sá vinnuhópur reyndist húsbónda sínum hollur og sagði í skýrslu sinni að það væru rík efnisleg rök fyrir því að setja skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu svo hún reyndist vera marktæk. Minnast menn þessa?

Starfshópurinn benti vissulega á að slíkar takmarkanir stæðust hugsanlega ekki stjórnarskrá Íslands og í skýrslu starfshópsins um það efni til formanna ríkisstjórnarflokkanna sagði, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn er ljóst að ekki er vafalaust að slíkur áskilnaður í lögum nú stæðist þær stjórnskipulegu formkröfur sem grein er gerð fyrir hér að framan.“

En áfram var málið reifað og sagði enn fremur, með leyfi forseta:

„Annaðhvort stenst það áskilnað að setja slík fyrirmæli í almenn lög eða ekki án tillits til þess einstaka tilviks sem nú er staðið frammi fyrir.“

Enn segir, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn tekur þó fram að þeim mun hóflegri sem takmörkun af þessu tagi er þeim mun líklegra verður talið að hún fái staðist.“

Eða með öðrum orðum, hæstv. forseti, því vægar sem menn fara í sakirnar því líklegra er að menn kæmust upp með plottið.

Hverjir voru þetta? Þetta voru lögfræðingar og lögspekingar. Hver fór fyrir hópnum? Það var lögfræðingurinn Karl Axelsson sem ríkisstjórnin beitir nú fyrir sig, sem talar um málflutning okkar sem storm í vatnsglasi. (Gripið fram í: Gættu orða þinna.) Ég gæti orða minna. Þetta er satt og þetta er rétt sem ég er að segja. Ég er að vísa í lögfræðingaskýrslu frá sumrinu 2004 sem unnin var á vegum ríkisstjórnarinnar um mjög umdeilt mál. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að vekja athygli á því að einnig lögfræðingar hafa skoðanir. (Gripið fram í.) Þeir sem t.d. fara fyrir nýrri Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál sem beitir sér fyrir því, svo ég vitni orðrétt í það sem segir í skýringum um markmið þeirrar stofnunar, með leyfi forseta:

„… að auka skilning á mikilvægi frjálsra viðskipta og eignaréttinda …“

Í stjórn þessarar stofnunar eru margir kallaðir til sögunnar, ýmsir menn úr pólitík og athafnalífi. Yfir þessu er síðan sérstakt rannsóknarráð. Þar sitja ágætir menn, Jónas Haralz, Hannes Hólmsteinn og viti menn, Karl Axelsson, til að auka skilning á eignarrétti. Þetta eru markmiðin. Þetta eru sérfræðingarnir sem ríkisstjórnin beitir núna fyrir sig og skammast út í okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að voga okkur að vefengja þeirra málflutning. Ég minni einnig á hitt (Gripið fram í.) að það er enginn fræðimaður sem stendur á bak við mig. Minnast menn umræðunnar árið 1998? (Gripið fram í: Já.) Já, menn minnast hennar. Þar var vitnað í lögspekinga, Ólaf Jóhannesson og Bjarna Benediktsson. Hv. þm. Birkir Jón er að hvetja mig til þess að fara yfir það mál og ég skal gera það síðar í dag ef hann óskar eftir því. Það er alveg sjálfsagður hlutur. Ég er með þessa umræðu alla við höndina.

Það var vitnað í þá lögspekinga þegar verið var að deila um það hversu langt ætti að færa eignarréttindin niður í jörðina. Þá var verið að fjalla um jarðrænar auðlindir langt niður í jörðina. Sumir vildu fara stutt, 10 metra, aðrir 100 metra, ríkisstjórnin helst til Kína. Í þeim lögum voru tryggð eignarréttindi einstaklinga yfir jarðrænum auðlindum á ríkari hátt en nánast nokkurs staðar á byggðu bóli og einnig þá komu þessar fullyrðingar fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að stjórnarandstaðan færi með tómt mál. Minnast menn þess? Ég minnist þess því ég tók þátt í þessum umræðum sjálfur. Þá voru menn að vitna í m.a. álitsgerðir þeirra manna sem ég nefndi hér og eru margir aðrir kallaðir til sögunnar, sumir af hálfu stjórnarmeirihlutans vissulega og aðrir stjórnarandstöðunnar. Menn lögðu ekki allir sama skilning í orð þeirra en um þetta voru deilur. En sömu fullyrðingarnar af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans og við heyrum nú voru einnig til staðar í þeirri umræðu.

Það hefur verið vísað til umræðunnar árið 1923. Þá fór fram umræða um þessi grundvallarmál. Þar tókust annars vegar á allsherjarréttarsinnar og hins vegar séreignarréttarsinnar. Ég er með skeyti sem landsstjórnin sendi til allra sýslumanna landsins í aprílbyrjun árið 1918, fyrir setningu vatnalaganna að sönnu, en sem endurspeglar þá umræðu sem þá fór fram. Þá var tekist á um hvort heimila ætti sölu á fossunum til útlendinga jafnt sem innlendra manna, og í þessu skeyti segir, með leyfi forseta:

„Fossnefndin hefur skýrt Stjórnarráðinu frá því að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að vatnsréttindi séu ótvírætt almenningseign þó að einstakir menn einn eða fleiri eigi beitirétt þar og telur nefndin alla þá sölusamninga ólögmæta sem hreppsfélög er eiga afrétt í óbyggðum kynnu að hafa gert um réttindi er þau telja sig eiga til vatns og vatnsafls í afréttum sínum. Samkvæmt þessu skal yður hér með tjáð að leiðbeiningar og birtingar fyrir sýslunefndinni í umdæmi yðar, að landsstjórnin vegna landssjóðsins geri tilkall til allra vatnsréttinda á afréttum þar sem tveir eða fleiri eiga eða hafa átt saman sumarbeit og geldfjárhöfn.“

Ég nefni þetta aðeins til að minna á þá umræðu sem fram fór á þessum tíma og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og eflaust margir aðrir hafa gert skilmerkilega grein fyrir þessari umræðu og vísað til breytingartillagna sem komu fram við afgreiðslu vatnalaganna árið 1923 sem endurspeglar þau grundvallarátök sem þá fóru fram.

Að lokum þetta, hæstv. forseti. Það er talað um mikilvægi þess og nauðsyn að endurskoða þennan gamla lagabálk frá 1923. Ekki er ég andvígur því. En þá skulum við líka svara kalli tímans við endurskoðun þeirra laga og hvert er kall tímans? Hvert vilja menn hlusta? Í hvaða átt vilja menn beina sjónum sínum og á orð hverra vilja þeir hlusta? Vilja menn hlusta á og horfa til alþjóðafjármagnsins, til Verslunarráðsins eða ámóta samtaka sem vilja festa eignarréttinn í sessi og einkavæða þessa dýrmætu auðlind? Eða ætla menn að hlusta á rödd almennings, almannasamtaka, bæði hér og um heim allan sem krefjast þess að vatnið verði virt sem mannréttindi og aðgangur almennings að vatninu verði tryggður í hvívetna. Það er þar sem við stillum okkur upp í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þess vegna erum við andvíg þessu einkavæðingarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar, frumvarpi sem býr í haginn fyrir einkavæðingu á vatni.