132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:14]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég var búin að biðja um að hæstv. landbúnaðarráðherra yrði viðstaddur þessa umræðu.

(Forseti (DrH): Forseti vill tilkynna að búið er að gera hæstv. landbúnaðarráðherra viðvart. Hann mun koma eins skjótt og hann getur.)

Ég vona, frú forseti, að hæstv. ráðherra hraði sér. En okkur er skammtaður tími til ræðuhalda og gert er ráð fyrir að við séum ekki mjög lengi í ræðustól.

Eðli málsins samkvæmt snertir frumvarp sem fjallar um vatn sennilega öll ráðuneyti landsins, án þess að ég hafi gert á því sérstaka skoðun. Vatn er efni sem kemur víðast hvar við athafnir okkar. Í þessu frumvarpi er örugglega hægt að sjá þess stað að málefnin sem um er fjallað komist á einhvern hátt í snertingu við mismunandi mörg ráðuneyti og á mismunandi hátt í gegnum vatnið eða fyrir tilstuðlan vatnsins. Þannig snertir það t.d. dóms- og kirkjumálaráðuneytið vegna þess að það er notað til skírnar, enda hefur kirkjan ályktað um vatn og vatnið er undirstaða lífs.

Í fljótu bragði hugsa ég að þetta frumvarp snerti ekkert ráðuneyti eins mikið og á eins marga vegu og landbúnaðarráðuneytið. Einmitt þess vegna hef ég óskað eftir að hæstv. ráðherra landbúnaðarmála yrði viðstaddur. Nú langar mig að spyrja aftur, virðulegi forseti, hvort langt sé í hæstv. ráðherra af því að það þjónar ekki miklum tilgangi að ég haldi ræðu mína um það málefnið sem ég ætlaði að skiptast á skoðunum við hæstv. ráðherra um.

(Forseti (DrH): Forseti hefur ítrekað gert hæstv. ráðherra viðvart og hefur aftur og enn gert tilraun til að fá hann hingað til fundar. En það er spurning hvort hv. þingmaður vill ekki hleypa öðrum ræðumanni í stólinn til að liðka fyrir. Þá mundi ég gefa hv. 8. þm. Norðvest., Jóni Bjarnasyni, orðið, ef hv. þingmaður vill þiggja það.)

Frú forseti. Ég þakka fyrir og þigg það með þökkum ef hv. þm. Jón Bjarnason er tilbúinn til að halda ræðu sína.

(Forseti (DrH): Það er tillaga forseta að hv. þingmaður víki úr ræðustól í bili og hv. þm. Jón Bjarnason taki til máls.)

Ég þigg það með þökkum, virðulegi forseti.