132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:26]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (frh.):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá tillitssemi sem mér og hæstv. landbúnaðarráðherra var sýnd áðan með því að leyfa mér að halda áfram ræðu minni eftir að hann væri kominn í salinn. En nú ber svo við að hæstv. landbúnaðarráðherra er horfinn á ný. Mér þætti vænt um ef þess væri farið á leit við ráðherra, sem ég vona að finnist einhvers staðar í nágrenninu, að hann komi hingað í salinn og hlýði á mál mitt.

Það var reyndar athyglisvert, frú forseti, að um leið og hæstv. landbúnaðarráðherra gekk í salinn spratt hæstv. iðnaðarráðherra úr sæti sínu og hvarf á braut og hefur ekki sést síðan. Ég veit ekki hvað það táknar. Hér kemur hæstv. iðnaðarráðherra og það er gott. Það væri ágætt ef báðir hæstv. ráðherrar yrðu hér til þess að hlýða á mál mitt því að það snýr að þeim báðum. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur farið lengri bæjarleið sýnist mér.

(Forseti (DrH): Forseti tilkynnir að ráðherra er að ganga í salinn.)

Hann gengur nú í hliðarsal, takk fyrir, og hef ég þá ræðu mína.

Ég hóf ræðu mína á því áðan, virðulegur forseti, að segja að sennilega geti maður fundið snertifleti við þetta frumvarp til vatnalaga og ýmsum málefnum hjá öllum ráðuneytum Íslands. Vatn er þess eðlis að það snertir bókstaflega alla hluti. Ég held að sennilega komi ekkert ráðuneytanna jafnvíða við sögu í þessu frumvarpi og landbúnaðarráðuneytið. Stærstur hluti Íslands er jú dreifbýli, sveitir sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Vatn er undirstaða atvinnulífs í sveitum, ekki einungis til forna, eins og þeir sem semja frumvarpið hafa kosið að hafa til viðmiðunar, heldur og fyrir nýjar atvinnugreinar sem komið hefur verið upp til sveita og verða örugglega undirstaða atvinnulífs í sveitum í framtíðinni.

Ég held þó, virðulegur forseti, að í þessu frumvarpi séu dæmi um að seilst sé í verkefni sem heyrir beint undir tiltekinn ráðherra, þ.e. annan ráðherra en þetta tiltekna lagafrumvarp er lagt fram af. (MÁ: Lætur hann stela þessu frá sér.) Þar á ég að sjálfsögðu við 22. gr. sem kveður á um varnir gegn landbroti, þ.e. þar heitir það breytingar á vatnsfarvegi. Þessi grein er að hluta til samhljóða 14. gr. sem kveður líka á um varnir, en þar er þó ekki jafngróflega farið inn á verkefni Landgræðslu ríkisins sem heyrir undir hæstv. landbúnaðarráðherra.

Ég bað hæstv. landbúnaðarráðherra að vera viðstaddan þar sem ég vonaðist eftir því að hann tjáði okkur skoðun sína á háttalagi hæstv. iðnaðarráðherra. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. landbúnaðarráðherra hefði afhent hæstv. iðnaðarráðherra ákveðin verkefni sem undir landbúnaðarráðuneyti falla samkvæmt núgildandi lögum og hvort meira sé í farvatninu af slíkri afhendingu eða yfirfærslu á verkefnum?

Það er ekki einungis að hæstv. iðnaðarráðherra seilist í tiltekin verkefni heldur er óvarlega farið að. Í lögum nr. 91/2002, lögum um varnir gegn landbroti, er ítarlega og vel farið að lagasetningunni. Þar er er kveðið á um tilgang, skilgreiningar, yfirstjórn og framkvæmd. Varðandi framkvæmdina er t.d. kveðið skýrt á um samráð við mismunandi aðila. Það er ekki að ófyrirsynju. Þegar krukkað er í vötn eða árfarvegi, eins og oftast er í slíkum tilfellum, geta verið ríkir hagsmunir í húfi, t.d. hagsmunir lax- og silungsveiðimanna. Í lögum um varnir gegn landbroti er jafnframt kveðið á um að samráð skuli haft við landeigendur og veiðifélög og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir ef svo ber undir. Einnig er kveðið á um bætur ef tjón verður og einnig hvert vísa eigi ágreiningsmálum ef þau koma upp. En ekkert slíkt er fyrir hendi í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra til vatnalaga. Í 22. gr. er einungis heimildarákvæði til fasteignareiganda um að breyta vatnsfarvegi, punktur og basta. Í síðustu málsgrein sömu greinar er síðan kveðið á um að ráðherra beri beinlínis að ráðast í framkvæmdir en hvort tveggja er gert án nokkurs fyrirvara um samráð.

Í sömu grein, þ.e. í 22 gr. segir síðan, með leyfi forseta: „Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati …“ Það hlýtur líka að vekja upp spurningar. Það er væntanlega munur á bótum fyrir hugsanlegan skaða af eignarnámi, en í lögum nr. 91/2002 segir að greiða skuli „skaðabætur í samræmi við lög og almennar venjur.“

Þetta finnst mér alvarlegasta atriðið í lögunum hvað varðar landbúnaðarráðuneytið. Mér finnst að hæstv. landbúnaðarráðherra verði að fá tækifæri til að skýra frá áliti sínu á þessu máli. Lagafrumvarp hæstv. iðnaðarráðherra fer reyndar einnig í bága við ábúðarlög og jarðalög, t.d. 11. gr. ábúðarlaga sem kveður á um réttindi og skyldur ábúenda. Skilgreiningarnar í ábúðarlögum og jarðalögum eru ekki samhljóma þeim sem eru í þessu lagafrumvarpi. Þó veit ég að leitast var við því við gerð þeirra tvennu laga sem ég hef vísað til, að samræma skilgreiningar öðrum lögum. En sú vinna hefur ekki verið unnin í þessu lagafrumvarpi, nema að vísvitandi eigi að reyna að skerða möguleika fólks úti á landsbyggðinni, sem getur mjög vel verið.

Eiginlega hlýtur það að vera ætlun hæstv. ráðherra, að skerða möguleika fólks úti á landsbyggðinni til atvinnurekstrar. Komið hafa ábendingar frá fjölmörgum aðilum sem bent hafa á hvernig betur mætti fara í þessu efni en það hefur ekki verið tekið tillit til þeirra frekar en annarra réttmætra ábendinga um úrbætur.

Ég vænti þess að hæstv. landbúnaðarráðherra tjái okkur hv. þingmönnum hug sinn til þeirra breytinga sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til að Alþingi samþykki, jafnframt hvort það hafi verið gert með vilja hæstv. landbúnaðarráðherra og hvort fleira er í farvatninu af þessu tagi?