132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:32]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við þessari spurningu er nei. Þetta var ekki fyrirséð á þessum tíma. Að minnsta kosti höfðum við sem bárum ábyrgð á málinu á Alþingi, meiri hluti sjávarútvegsnefndar, ekki þann skilning á málinu að það væri eðlilegt að standa þannig að þessari lagagrein, 3. gr. a, eins og gert er ráð fyrir að gera skuli með því frumvarpi sem nú er verið að mæla fyrir og ræða um. Við hefðum að sjálfsögðu hagað lagasetningunni öðruvísi ef við hefðum séð þetta fyrir og talið að þetta væri ekki í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur og lúta að Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég hef reynt að fara aðeins í huganum yfir þessa umræðu eins og hún átti sér stað í fyrra. Mig rekur ekki minni til að þetta hafi verið gert að sérstökum ásteytingarsteini, það kann þó að vera, ég man það ekki. En það var a.m.k. ekki, eins og ég man þá umræðu, eitt af stóru málunum sem við vorum að fást við þegar frumvarpið var til umræðu í sjávarútvegsnefnd á sínum tíma. En út af fyrir sig er eðlilegt, þegar einhver reynsla er komin á lög og menn farnir að vinna eftir þeim, að upp geti komið tilvik sem menn sáu ekki fyrir á Alþingi þó að við reynum alltaf að vanda okkur við lagasetninguna. Þá eiga menn einfaldlega að vera menn til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru, bæði til að vinna í samræmi við þær fjölþjóðlegu og alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur og eins að breyta lögum í samræmi við það sem við teljum að til betri vegar megi horfa.