132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:34]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að metið sem hæstv. landbúnaðarráðherra setti áðan verði seint slegið, þ.e. að koma því til skila að lög sem ekki var búið að staðfesta við 3. umr. væru svo vitlaus að það þyrfti að endurskoða þau strax, en samt gerðu menn það hér. Það er ekki látið standa á því að klára það sem ríkisstjórnin leggur fyrir þingheim jafnvel þó ráðherra úr ríkisstjórninni komi og segi frá slíku.

En þetta var ekki beinlínis erindi mitt í stólinn þó það hafi gefið tilefni þar sem hér er á ferðinni breyting á lögum sem eru ekki nema ársgömul. Það sem ég vildi gjarnan fá svar við hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra af því að ég átta mig ekki alveg á því, ég taldi að sjávarútvegurinn væri undanþeginn í EES-samningnum og ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Tilheyrir fiskmarkaður ekki sjávarútveginum samkvæmt EES-samningnum? Er það niðurstaðan og hvernig er skilgreiningin á honum? Hvað er undanþegið samkvæmt EES-samningnum? Ef fiskmarkaðirnir eru ekki undanþegnir, eru þá fiskvinnslurnar undanþegnar? Hvað er eiginlega undanþegið af sjávarútveginum? Ég hef litið þannig á að meðferð sjávarafla sé hluti af sjávarútvegsstarfsemi í landinu. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að greina okkur nákvæmar frá því hvernig á því stendur að þetta fer í bága við EES-samninginn sjálfan því hann er frá 1993 og menn hafa örugglega haft hann til hliðsjónar þegar þessi lög voru undirbúin.