132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti út af fyrir sig vísað til fyrra svars míns áðan sem ég veitti við fyrirspurn hv. 3. þm. Norðaust. varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns, af hverju menn sáu þetta ekki fyrir. Það er einfaldlega stundum þannig þegar við erum að fara yfir svona lagasetningar að við sjáum ekki alla hluti og upp koma nýjar hliðar á málum sem gera það að verkum að við þurfum að breyta lögum og til þess erum við m.a. hérna. Við þurfum að breyta lagaumhverfi vegna þess að aðstæður breytast og þær kalla á lagabreytingu.

Ég nenni ekki einu sinni að svara svona rugli eins og hv. þingmaður er orðinn þekktur fyrir, að ætla mönnum alltaf einhverjar annarlegar hvatir. Og að ég sé að ganga erinda einhverra útlendinga til að opna inn á fjárfestingarleiðir í sjávarútvegi er náttúrlega ekki svaravert en er hins vegar mjög dæmigert fyrir hv. þingmann sem aldrei virðist geta rætt hlutina efnislega heldur ætlar mönnum alltaf annarlegar hvatir.

Varðandi spurningu hans um fríverslunarsamninginn við Færeyjar þá hélt ég satt að segja að hann væri kominn fyrir þingið en hann er örugglega alveg á leiðinni. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi samningur felur í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar og þær verða auðvitað ekki uppfylltar fyrr en Alþingi hefur tekið afstöðu til þeirra. Ég fagna hins vegar þessum samningi og tel að hann verði til þess að bæta og auka tengsl Íslendinga og Færeyinga og það er mjög af hinu góða.