132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[17:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hérna er lítið frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur mælt fyrir og lýtur að því að heimila einstaklingum sem hafa ríkisfang og búsettir eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, að koma inn í rekstur á uppboðsmörkuðum fyrir sjávarafla.

Það eru örfá atriði sem ég vildi minnast á í þessu sambandi. Lögin um uppboðsmarkaði sjávarafla voru til meðferðar hjá okkur árið 2005, það er bara tæpt ár ef það nær því þá síðan þau lög voru til ítarlegrar meðferðar í sjávarútvegsnefnd. Þá voru þar einmitt óvissuatriði sem svo sannarlega voru ekki útkljáð í nefndinni áður en lögin voru samþykkt. Það var um eignarhald á uppboðsmörkuðum og sjálfstæði þeirra.

Í nefndinni kom fram að uppboðsmarkaðir fyrir sjávarafla voru gjarnan í eigu útgerðaraðila eða í eigu einstakra fiskvinnslna og slíkt gæti hindrað markmiðssetningu 1. gr. laga um uppboðsmarkaði, þ.e. eins og stendur þar, með leyfi forseta:

„Við veitingu leyfa skal ráðherra m.a. meta hvort skilyrði séu til frjálsrar verðmyndunar á uppboðsmarkaði með hliðsjón af líklegu fiskframboði, fjölda fiskvinnslustöðva á markaðssvæði og starfsemi annarra uppboðsmarkað.“

Þarna ræddum við einmitt um þau miklu eignatengsl sem virtust vera á milli uppboðsmarkaðanna, útgerðaraðilanna og fiskvinnslustöðvanna. Við vorum svo sannarlega hreint ekki viss um að þessi markmiðsgrein laganna næðist um sjálfstæði uppboðsmarkaðanna. Ég segi fyrir mitt leyti að ég var eiginlega viss um að þeir stæðust ekki því svo sterk voru eignatengslin þarna á milli að erfitt var að sjá að frjáls verðmyndun yrði á uppboðsmarkaði við þær aðstæður sem eru. Við vildum að mig minnir setja inn ákvæði sem kvæði skýrar á um þetta, en það fékkst ekki. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvernig hann líti á þessi nánast skilyrðislausu eignatengsl sem lögin virðast heimila eða ekki koma í veg fyrir. Hvergi í lögunum eru neinar hömlur á því að útgerðaraðilar eða fiskvinnslan geti í rauninni átt þessa uppboðsmarkaði og þar af leiðandi erfitt að sjá að um neina frjálsa verðmyndun sé að ræða eða að hún sé tryggð. Þegar á enn að rýmka eða fjölga aðilum sem geta komið, átt og rekið fiskmarkaði hér á landi hlýtur sú spurning að vera enn meira brennandi hvort ekki verði að setja strangari reglur um eignarhald á fiskmörkuðum til að tryggja sjálfstæði þeirra.

Þessir uppboðsmarkaðir eru mjög mikilvægir fiskvinnslunni í landinu bæði til að tryggja framboð á fiski til fiskvinnslna sem ekki hafa útgerð og einnig til að tryggja eðlilega verðmyndun í sjávarútveginum. En þá verður þetta að vera raunverulegur samkeppnismarkaður. Annars er bara verið að misnota þá möguleika og þá lagaumgjörð sem um það væri búin. Þess vegna vil ég ítreka það og spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki verði að taka á þessum þáttum sem lúta að eignarhaldi og eignatengslum á uppboðsmörkuðum fyrir sjávarafla, lúta að tengslum við fiskvinnslur og útgerð og það verði enn brýnna að gera það ef þetta lagafrumvarp sem hér er á ferðinni verður samþykkt.

Ég vil minna á tillögu til þingsályktunar sem við nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt, sá sem hér stendur, hv. þm. Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Það er tillaga til þingsályktunar um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis. Ég hef mælt fyrir þeirri tillögu áður en vil þó leyfa mér að vitna til hennar frú forseti, af því að hún snertir þetta frumvarp. Sú tillaga hljóðaði upp á að fela sjávarútvegsráðherra að kanna orsakir mikils útflutnings á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis og mögulegar leiðir til að draga úr honum og auka í staðinn fullvinnslu hér innan lands. Í fylgiskjölum með þeirri tillögu til þingsályktunar er rakið ítarlega hversu útflutningur á óunnum fiski hefur verið að aukast, svokölluðum gámafiski, á markaði erlendis og á fiski sem ég hefði talið eðlilegra að kæmi inn á fiskmarkaði hér og innlend fiskvinnsla gæti boðið í fiskinn til jafns við erlendar fiskvinnslur hér á mörkuðum. Ég óttast að frumvarpið sem nú liggur fyrir gæti leitt enn frekar til þess að allt slíkt ferli, uppboðsmarkaður og fiskvinnsla, færist í auknum mæli úr landi en því miður er töluvert mikið af fiski fluttur út óunninn á markaði erlendis sem íslenskar fiskvinnslur hafa engin tök á að bjóða í. Um leið og þessi lög eru opnuð um uppboðsmarkaði sjávarafla finnst mér að skoða eigi þessa þætti.

Eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom inn á og ég vil taka undir eru ekki svo skýr mörk á milli uppboðsmarkaða, fiskvinnslu og reyndar útgerðar. Á uppboðsmörkuðum er fiskur slægður og grunnþættir fiskvinnslu geta farið þar fram. Er ekki verið að fara aftan að lögum um að ekki skuli leyfa erlendum aðilum að fjárfesta með beinum hætti í íslenskum sjávarútvegi? Er ekki verið að fara aftan að þeim með þessu frumvarpi hér? Mér finnst að skoða þurfi það mjög rækilega.

Í lokin, frú forseti, í tengslum við umræðuna áðan um vatnið, um þjóðareign á vatni, þá held ég að sé mjög hollt fyrir okkur að rifja stöðugt upp 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Ég vil minna á að þau lög sem við erum hér að fjalla um, um uppboðsmarkaði, eru í rauninni hluti af þessum heildarlögum um stjórn fiskveiða þar sem stendur m.a.: „Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Lögin um uppboðsmarkaði eru einmitt hluti af þessari heildarsýn sem við hljótum að skoða í mjög nánu samhengi og hefði verið betra að í nýafgreiddum vatnalögum hefði þetta einmitt byrjað svona, að vatnsauðlindin á Íslandi skuli vera sameign íslensku þjóðarinnar alveg eins og nytjastofnarnir. En því kippum við í liðinn þegar þar að kemur. Ég minni á að frumvarp þetta er hluti af þeirri heild og hlýtur að verða að skoðast í því samhengi.