132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Ákvörðun Bandaríkjamanna í varnarmálum.

[15:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um stöðu varnarmála og aðdraganda ákvörðunar Bandaríkjamanna. Þá ákvörðun bar mjög brátt að eins og við þekkjum. Hún kom á meðan íslensk stjórnvöld töldu að þau ættu í alvarlegum samningaviðræðum við Bandaríkjamenn. Þetta var auðvitað fáheyrð framkoma af hálfu Bandaríkjamanna, ekki síst í ljósi þess að við erum gömul vina- og samstarfsþjóð.

Það má rifja upp að með svipuðum hætti kom líka tilkynningin árið 2003, þegar bandarísk stjórnvöld tilkynntu íslensku ríkisstjórninni að þau hygðust flytja varnarliðið á brott, en þá var aðdragandinn hins vegar öðruvísi gagnvart þjóðinni að því leyti til að hæstv. ríkisstjórn kaus að tilkynna ekki um ákvörðunina þegar í stað. Hún hélt málinu leyndu og það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að hún treysti sér til að koma fram með þessa niðurstöðu.

Það var haft eftir hæstv. forsætisráðherra í fjölmiðlum síðastliðinn miðvikudag að íslenskum stjórnvöldum hafi borist ákvörðun bandarísku ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna hafi hringt í hæstv. utanríkisráðherra og síðan hafi sendiherra Bandaríkjanna gengið á fund hæstv. utanríkis- og forsætisráðherra. Mig langar, frú forseti, í ljósi atburðarásarinnar 2003 að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það hafi virkilega verið svo að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið látin vita um ákvörðun Bandaríkjastjórnar fyrr en þennan dag.