132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Þverpólitísk aðkoma að öryggismálum.

[15:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Slíkur sameiginlegur vettvangur er til sem er utanríkismálanefnd. Hér er um meiri háttar utanríkismál að ræða og það verður haft samráð á þeim vettvangi. Þar eiga allir stjórnmálaflokkar sína fulltrúa og ég tel það eðlilegan vettvang. Það sem nú þarf að gera er þrennt. Í fyrsta lagi þarf að ganga til samninga og viðræðna við Bandaríkjamenn. Það hefur verið undirbúið og er verið að undirbúa það. Í öðru lagi þurfa ráðuneyti að hafa samráð um mikilvægar ákvarðanir og það sem mestu máli skiptir í því samhengi eru björgunarmálin, þyrlumálin sem verður að taka ákvörðun um fljótlega. Í þriðja lagi eru atvinnumálin á Suðurnesjum. Þar hefur verið ákveðið að stofna samráðsvettvang með aðilum á Suðurnesjum, með sveitarfélögum á Suðurnesjum, og var gengið frá því í gær þó að ekki hafi verið skipað í þá nefnd. Við munum að sjálfsögðu rækta þann samráðsvettvang sem þingsköp gera ráð fyrir, sem eru utanríkismálanefnd Alþingis.