132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Þverpólitísk aðkoma að öryggismálum.

[15:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessi svör og fagna þeim skrefum sem þegar hafa verið stigin, að efna til samráðs með sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum. Hitt er síðan rétt að við höfum þann vettvang sem er utanríkismálanefnd Alþingis, en það sem fyrir okkur hefur vakað er breikka og efla þetta samstarf og gera það sem allra markvissast. Það lýtur, eins og fram hefur komið, að öryggismálum, að björgunarmálum, að öryggisstefnu þjóðarinnar í framtíðinni en einnig að skammtímaþáttum sem snúa að brottför hersins. Þá er ég ekki síst að hugsa um mengunarmál og hvernig bandaríski herinn á Miðnesheiði kemur til með að skilja við landið og þær kröfur sem reistar verða á hendur hernum hvað þetta snertir.