132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Þverpólitísk aðkoma að öryggismálum.

[15:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, það hefur verið ágreiningur um utanríkismálin, ekki síst á milli míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hefur haldið fram kröfunni um herlaust Ísland og Ísland utan hernaðarblokka, og hins vegar annarra flokka sem hafa verið þessu fylgjandi. En einmitt þess vegna og í ljósi þess að nýjar aðstæður eru að skapast, að Ísland er núna í nýjum heimi, er nauðsynlegt að efna til þverpólitísks samstarfs. Það er ljóst að það verður talsvert um nefndastarf á næstunni, bæði innan flokka og milli flokka, og ýmsir kallaðir til þeirrar vinnu. Fyrir okkur vakir að á vettvangi Alþingis skapist þverpólitísk samstaða um vinnubrögðin í þessu efni.