132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Innrásin í Írak.

[15:18]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Aðeins framtíðin getur leitt það í ljós hvort það sem hefur gerst í Írak verði þjóðinni til farsældar þegar fram líða stundir. Það er alveg ljóst að þar er um að ræða tvo vonda kosti. Ég held að öllum megi vera það ljóst að framtíð íröksku þjóðarinnar hefði ekki verið björt undir ógnarstjórn Saddams Husseins. Það er líka ljóst að það ástand sem núna er í Írak er mjög alvarlegt. Þar ríkir ástand sem er á margan hátt skelfilegt, þar eiga sér stað hryðjuverk og þær hryðjuverkaárásir sem þar eru stundaðar á hverjum degi hljóta að vera öllum mikið áhyggjuefni.

Við skulum vona að lýðræði festi sig í sessi í Írak, að írakska þjóðin geti unnið fram úr þeim vandamálum sem þar blasa við og hún geti tekið sjálf á því sem fyrst þannig að þeir erlendu hermenn sem þar eru hverfi þaðan á brott sem allra fyrst. Við skulum vona að svo verði og við skulum líka minnast þess að þau verk sem nú er verið að vinna í Írak á vegum alþjóðasamfélagsins eru unnin á grundvelli ályktana Sameinuðu þjóðanna. Um það var full samstaða hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er mjög mikilvægt og írakska þjóðin þarf á aðstoð alþjóðasamfélagsins að halda inn í framtíðina.

Auðvitað má deila um það sem áður hefur gerst en framtíðin hlýtur að skipta meginmáli og aðeins sagan getur dæmt það þegar fram líða stundir.