132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fjölgun starfa hjá ríkinu.

[15:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður vera að finna að því að ráðherrar færu yfirleitt út á land. Er það ekki jákvætt ef um viðburði er að ræða úti á landi þar sem verið er að opna t.d. einhverja nýja starfsemi að ráðherrar mæti þar og taki þátt í þeim viðburðum? Ég veit ekki hvort það er út af einhverri öfund eða hvað það er en hv. þingmaður nefndi þetta sérstaklega.

Svo vil ég líka segja að það getur fleira jákvætt gerst á landsbyggðinni en að fjölgað sé opinberum störfum. Það er svo margt annað sem þar kemur til og hefði verið hægt að telja upp ef um lengri tíma hefði verið að ræða.