132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Skattalækkun og ný hjúkrunarheimili.

[15:33]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og alþjóð er kunnugt er allnokkur vandi uppi í málefnum aldraðra, sérstaklega hvað varðar hjúkrunarheimili. Það er talið að í dag séu um 350 einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými og um 950 einstaklingar deila herbergi með öðrum en maka sínum um þessar mundir. Þörfin fyrir ný hjúkrunarrými er um 1.300 í dag, og hið fyrsta vilja menn fá úrbætur á þessu sviði.

Þetta kostað auðvitað allnokkra peninga. Talið er að kostnaðurinn við 350 ný rými miðað við daggjald í dag gæti verið um 1,8 milljarðar kr. á ári. Kostnaður við að einsetja stofur sem í dag eru með tveimur eða fleiri einstaklingum gæti verið um 1,2 milljarðar kr. á ári, samtals mundi kosta um 3 milljarða kr. á ári að leysa úr þessum vanda, um 1.300 ný hjúkrunarrými.

Því til viðbótar er rétt að geta þess að samkvæmt mannfjöldaspám Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að landsmönnum fjölgi um 16% á næstu 20 árum en þeim sem eru áttræðir og eldri muni fjölga um 36%. Þörf fyrir hjúkrunarrými mun á næstu árum aukast frá því sem nú er.

Til að mæta þessari þörf þarf peninga. Ég vil því beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að eitt prósentustig af þeim tekjuskatti sem á að fella niður um næstu áramót og gefur á milli 5 og 6 milljarða kr. á hverju ári verði notað sem fjármagn til að leysa úr vanda að þessu leyti, notað sem svarar einu prósentustigi til að (Forseti hringir.) leysa úr vanda í þessu efni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því?