132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Skattalækkun og ný hjúkrunarheimili.

[15:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Eins og hv. þingmanni er væntanlega kunnugt er nú að störfum nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar og samtaka eldri borgara um að fara yfir aðstæður og kjör eldri borgara hér á landi. Eitt af þeim verkefnum sem þessari nefnd hefur verið falið er að fara yfir búsetu og búsetuskilyrði aldraðra. Ég á von á því að þessi nefnd skili af sér áliti innan tíðar þó að ég viti ekki nákvæmlega hvenær það verður. Ég held þess vegna að það væri rangt af mér að gefa út einhverjar yfirlýsingar um það fyrir hverju ég ætla að beita mér í þessum efnum á meðan þessi nefnd er að störfum af hálfu ríkisstjórnarinnar og samtaka eldri borgara.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir þær upplýsingar sem hann kom með hér, ágætar tölulegar upplýsingar um stöðu mála sem út af fyrir sig undirstrika það vandamál sem þarna er við að glíma og þann vanda sem umrædd nefnd á að gera tillögur um hvernig haganlegast og best sé að leysa.