132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[15:41]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þingskjali 891 sem er 607. mál þessa þings. Um er að ræða frumvarp til nýrra laga um lax- og silungsveiði en samhliða framlagningu þessa frumvarps eru lögð fram fjögur önnur frumvörp sem saman mynda eina heild á sviði lax- og silungsveiðimála.

Gildandi lög um lax- og silungsveiði eru frá árinu 1970 en stofn þeirra má rekja allt aftur til ársins 1932. Þau eru 110 greinar, skiptast í 17 kafla og taka til margra ólíkra atriða sem sum hver hafa takmarkaða samstöðu enda hefur lögunum margoft verið breytt á þessum rúmu 70 árum án þess að nægjanlega væri hugað að lagasamræminu. Þá hafa nokkrar tilraunir verið gerðar til heildarendurskoðunar á löggjöfinni en þær ekki náð fram að ganga. Ljóst má vera að á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna hefur margt breyst í umhverfi veiðimála hérlendis sem gerir heildarendurskoðun nauðsynlega. Þýðing og mikilvægi atvinnurekstrar er tengist lax- og silungsveiðum hefur og aukist verulega á undanförnum árum en lagaumhverfið hefur ekki í nægjanlegum mæli verið í stakk búið til að bregðast við þeim breyttu aðstæðum. Löngu var því tímabært að ráðast í heildarendurskoðun á lagaumhverfinu.

Frumvarp þetta ásamt fylgifrumvörpum er afrakstur vinnu nefndar sem ég skipaði 1. júlí árið 2001 til að endurskoða gildandi lög um lax- og silungsveiði. Nefndin var í upphafi skipuð þeim dr. Gauki Jörundssyni, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, dr. Páli Hreinssyni, lagaprófessor við Háskóla Íslands, og Ingimar Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu. Við fráfall dr. Gauks Jörundssonar voru í hans stað skipaðir til starfans þeir Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og lektor, og Þorgeir Örlygsson, dómari við EFTA-dómstólinn, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Stefánsson, héraðsdómslögmaður á Lex-Nestor lögmannsstofu, og Atli Már Ingólfsson, lögfræðingur og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Þá hefur dr. Sigurður Guðjónsson, forstöðumaður Veiðimálastofnunar, verið ráðgjafi við samningu frumvarpsins.

Það var vissulega áfall í miðjum klíðum vinnu um þessa löggjöf að dr. Gaukur Jörundsson féll frá langt um aldur fram. Við minnumst hans hér á Alþingi sem fyrsta umboðsmanns og hins sterka lögmanns. Mikill fræðimaður var hann í lögfræði og á seinni tímum einn okkar færasti maður á því sviði. Hans er sárt saknað og minnumst við hans með þakklæti og virðingu.

Í endurskoðunarstarfinu var ákveðið að kljúfa þau lög upp í fimm lagabálka þar sem sumum væri skipað með þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga. Ákvæði um veiðirétt er því að finna í frumvarpi þessu en ákvæðum um fiskrækt, fiskeldi og varnir gegn fisksjúkdómum er skipað í sérstök frumvörp. Þá er einnig lagt fram frumvarp til laga um Veiðimálastofnun en því frumvarpi er ætlað að leysa af hólmi gildandi lagaákvæði um Veiðimálastofnun. Saman mynda frumvörpin heildarumgjörð um málaflokk þennan ásamt nýsamþykktum lögum um Landbúnaðarstofnun, nr. 80/2005, en gert er ráð fyrir að stofnunin annist ákveðin stjórnsýsluverkefni í tengslum við lax- og silungsveiði. Nánari grein verður gerð fyrir fylgifrumvörpunum í framsöguræðum um hvert þeirra fyrir sig hér á eftir.

Meginmarkmið frumvarps þessa er hið sama og gildandi laga eða að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og þær takmarkanir sem sá réttur sætir. Er á því byggt sem meginreglu að eignarlandi hverju fylgi veiðiréttur í vatni, á eða fyrir því landi en í þjóðlöndum sé íslenska ríkið eigandi veiðiréttar með þeim takmörkunum sem leiðir af rétti afréttareiganda. Ákvæði frumvarpsins um veiðistjórn, veiðitæki og veiðiaðferðir takmarkar síðan þennan rétt með margvíslegum hætti, svo sem verið hefur. Þá er í 1. gr. frumvarpsins að finna þá stefnuyfirlýsingu að nýting þeirrar auðlindar sem í veiði felst skuli fara fram með skynsamlegum og hagkvæmum hætti þar sem sjálfbær nýting fiskstofnana verði höfð að leiðarljósi. Í þessu felst það viðhorf að þar sem ekki fara saman sjálfbær nýting fiskstofna annars vegar og hins vegar starfsemi sem í bága fer við hana þá skal sjálfbæra nýtingin ganga framar. Kemur þetta viðhorf og fram í ýmsum greinum frumvarpsins og fylgifrumvarpanna.

Í frumvarpi þessu er að meginstefnu til fylgt sömu efnisreglum og fram koma í gildandi lögum en framsetningu og efnisskipun er breytt í verulegum atriðum, m.a. með tilliti til breyttrar stjórnsýslu á sviði landbúnaðarmála og í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd gildandi laga. Í þessu felst að ráðgert er að lögin verði mun styttri, skýrari og hnitmiðaðri en nú er og ýmsir efnisflokkar annað tveggja fluttir í sérlög ellegar reglugerðir og reglur. Þá er og við það miðað að eftirlit með framkvæmd nýrra laga verði að hluta til í höndum veiðifélaga á hverju svæði og vald og ábyrgð þannig færð heim í hérað. Í frumvarpinu er einnig að finna ýmis efnisleg nýmæli sem ég mun fjalla nánar um á eftir.

Löggjöf um lax- og silungsveiðar er í eðli sínu löggjöf um náttúruauðlindir á því sviði. Efni frumvarpsins fylgir í öllum aðalatriðum sömu meginsjónarmiðum og fram koma í gildandi löggjöf um eignarhald og takmarkanir eignarráða annarra náttúruauðlinda, enda er þar um fyrirkomulag eignarhalds og takmarkanir þess byggt á viðhorfum sem ráðandi hafa verið í íslenskri löggjöf og lagaframkvæmd frá upphafi lagasetningar hér á landi um það efni. Verði frumvarp þetta og fylgifrumvörp þess að lögum má segja að gott samræmi verði í íslenskri löggjöf um eignarhald og nýtingu þýðingarmestu auðlinda landsins.

Staða íslenskra laxfiskstofna er betri en víðast annars staðar. Íslendingum hefur tekist að nýta laxveiðiauðlindina betur en öðrum þjóðum. Bæði fæst meiri arður af auðlindinni og ekki hefur verið gengið á auðlindina eins og hjá mörgum öðrum þjóðum sem við þekkjum til. Íslenskir laxastofnar standa almennt betur en stofnar víða annars staðar en í heild hefur Atlantshafslaxi hnignað verulega á síðustu áratugum. Svipað má segja um silungastofna þó nýting þeirra sé ekki eins mikil og þróuð og laxveiðin. Gott ástand mála er þó ekki sjálfgefið. Vel þarf að halda á málum til að viðhalda þessu góða ástandi og er góður lagarammi afar mikilvægur.

Stangveiðar eru mjög mikilvægar fyrir land og þjóð. Kannanir sýna að um þriðjungur Íslendinga eða um 60.000 manns á aldrinum 18–75 ára stunda stangveiði árlega. Stangveiði er því vinsæl og mikið stunduð. Þá hefur það verið metið að um 5.000 erlendir veiðimenn leggi leið sína hingað til lands til veiða í okkar laxveiðiám.

Laxveiðiframboð er nú um 34.000 stangadagar á ári. Það framboð verður ekki aukið mikið án ræktunaraðgerða. Veiðidagar Íslendinga eru yfir 400.000 á ári svo ljóst er að margir stunda silungsveiði. Veiðidagar á mann eru færri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.

Tekjur af veiðinytjum eru mikilvægar. Óbein og afleidd áhrif stangveiði má meta til 7,8–9,1 milljarðs kr. á ári. Þar af eru beinar tekjur veiðifélaga um 1–1,2 milljarðar kr. á ári. Milli 1.000 og 1.200 störf eru til vegna stangveiða. Sem dæmi má nefna að stangveiði stendur undir um það bil helmingi atvinnutekna í landbúnaði á Vesturlandi. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Veiðimálastofnunar um efnahagsáhrif stangveiða og stöðu laxastofna á Íslandi.

Að því var vikið hér að framan að við endurskoðun gildandi lax- og silungsveiðilaga væri óhjákvæmilegt að gera framsetningu nýrra laga sem einfaldasta og skýrasta og þau þannig aðgengilegri þeim sem með þau sýsla og hagsmuni sína eiga undir framkvæmd þeirra. Í þessu sambandi hafa þrír þættir verið nefndir.

Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði sérstök lög um fjóra málaflokka sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði.

Í öðru lagi er ráðgert að nánari útfærslu einstakra atriða verði fyrir komið í reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra sem og reglum Landbúnaðarstofnunar.

Í þriðja lagi hefur uppbyggingu laganna verið breytt til að gera þau einfaldari og skýrari. Má sem dæmi um það nefna að við framsetningu efnisreglna frumvarpsins er yfirleitt greint á milli þeirra reglna sem gilda um lax annars vegar og silung hins vegar, enda reglurnar oft ólíkar.

Þeir fjórir málaflokkar sem betur þykir fara á að um gildi sérstök lög eru í fyrsta lagi ákvæði um Veiðimálastofnun og stjórnsýslu hennar, samanber sérstakt frumvarp þar að lútandi. Er þetta í takt við þær venjur sem tíðkast hafa í lagasetningu hin síðari ár. Þykir ekki heppilegt að hafa ákvæði um starfshætti slíkrar rannsóknastofnunar í lögum sem fyrst og fremst lúta að eignarhaldi og stjórnsýslunýtingu auðlindarinnar. Er það einnig til mikillar einföldunar fyrir alla þá sem starfa eiga eftir lögunum. Í öðru lagi er lagt til að ákvæði gildandi laga sem lúta að fiskrækt, þar með talin ákvæði um fiskræktaráætlun og Fiskræktarsjóð, verði í sérstökum lögum, samanber sérstakt frumvarp til laga um fiskrækt. Í 2. gr. þess frumvarps er um gildissvið tekið fram að lögin muni taka til allrar fiskræktar sem fram fer á íslensku forráðasvæði en að teknu tilliti til ákvæða lax- og silungsveiðilaga sem og annarra sérlaga sem lúta að friðun, viðgangi og veiðum ferskvatnsfisks. Er með þessu minnt rækilega á það órjúfanlega samhengi og samræmi sem er á milli nýtingar veiðiréttar og fiskræktar þó af lagatæknilegum ástæðum fari betur á því að skipa þessu efni í tvenn lög. Það breytir hins vegar engu um það að eftir sem áður verður framkvæmd beggja laganna með samræmdum hætti. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæðum sem lúta að fiskeldi verði fyrir komið í sérlögum með sama hætti og á við um fiskrækt. Er þó ráðgert að lög þar að lútandi verði í öllum tilvikum skýrð til samræmis við og í samhengi við ákvæði þessa frumvarps verði það að lögum. Loks er í fjórða lagi ráðgert að í sérlög verði flutt öll þau ákvæði gildandi laga sem lúta að vörnum gegn fisksjúkdómum, innflutningi á lifandi fiski, hrognum og fleira. Eiga sambærileg rök við um þá tilhögun og tilflutning ákvæða um Veiðimálastofnun í sérlög, samanber hér að framan.

Til þess að benda sem skýrast á nauðsynlegt samhengi umræddrar löggjafar eru, sem fyrr segir, frumvörp sem lúta að þessum fjórum málaflokkum lögð fram samhliða frumvarpi þessu og ráðgert að þau öll og málaflokkurinn í heild fái þannig samræmda þinglega meðferð og afgreiðslu. Í þessu samhengi er rétt að benda á að lög um lax- og silungsveiði verði eins konar þungamiðja þessarar lagasetningar en hin frumvörpin þrjú koma þar til fyllingar og stuðnings þótt þau séu samkvæmt efni sínu sérstök frumvörp.

Aðstæður og staðhættir við nýtingu ferskvatnsfiskstofna eru mismunandi frá einum stað til annars og frá einum tíma til annars. Því þykir það horfa til mikils hagræðis og veita jafnframt nauðsynlegt svigrúm að samkvæmt frumvarpinu er ráðgert að nánari og sértæk útfærsla einstakra þátta fari fram á grundvelli reglugerða og svæðis- og tímabundinna reglna Landbúnaðarstofnunar. Í velflestum tilvikum er gert ráð fyrir aðkomu viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa og Veiðimálastofnunar. Heimildir hér að lútandi taka fyrst og fremst til útfærslu þeirra þátta sem eru í III. og IV. kafla frumvarpsins og varða veiðistjórnun, veiðitæki og veiðiaðferð en ákvæði í þessa veru eru nú í III., IV., V. og VI. kafla gildandi laga.

Lög um lax- og silungsveiði bera þess merki að þau eru að stofni til frá ýmsum tímum. Þykja mörg þau ákvæði sem í gildandi lögum er skipað saman, jafnvel innan einstakra greina, ekki eiga neitt sameiginlegt efnislega. Hefur köflum verið fækkað verulega frá gildandi lögum, einstök ákvæði færð til eftir efni þeirra og önnur felld niður. Til glöggvunar ber hver grein jafnframt sérstakt heiti sem ætlað er að vísa til megininntaks hennar og þýðingar.

Hæstv. forseti. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að öðru leyti þessi:

Í lögin eru tekin upp ákvæði um markmið og gildissvið. Allri stjórnsýslu samkvæmt lögunum er breytt, m.a. með tilkomu Landbúnaðarstofnunar, samanber lög nr. 80/2005, um Landbúnaðarstofnun, sem leysir embætti veiðimálastjóra af hólmi.

Greinarmunur verður nú gerður á veiði í eignarlöndum annars vegar og í þjóðlendum hins vegar, samanber lögtöku þjóðlendulaga, nr. 58/1998.

Réttur til innlausnar verður bundinn þeim tímatakmörkunum að hafi innlausn ekki farið fram innan fimm ára frá gildistöku laganna fellur slíkur réttur efnislega niður í eitt skipti fyrir öll.

Öll ákvæði um veiðistjórn eru nú sameinuð í III. kafla frumvarpsins, þeim skipað saman að nýju, fækkað og þau skýrð.

Lagt er til að veiðitími á laxi verði styttur úr þremur og hálfum mánuði í 90 daga.

Veiðifélögum, í samráði við Landbúnaðarstofnun og Veiðimálastofnun, er ætlað meira ákvörðunarvald um daglegan veiðitíma, en gætt skal meginreglu um 84 stunda vikufriðun.

Sú breyting er gerð að ósaveiði á stöng verður almennt heimiluð þó Landbúnaðarstofnun geti, að ósk veiðifélags eða veiðiréttarhafa, bannað eða takmarkað frekar slíka veiði. Ósaveiði í net og aðrar fastar veiðivélar verður þó áfram bönnuð.

Öll ákvæði um veiðitæki og veiðiaðferðir eru nú sameinuð í IV. kafla frumvarpsins, þeim skipað saman að nýju, fækkað og þau skýrð. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að veiðar verði framvegis lítið stundaðar á önnur veiðitæki en færi, stöng, lagnet og króknet.

Reglum um gerð fiskvega er breytt á þá lund að nú er gert ráð fyrir að fiskvegum verði lokað um lengri eða skemmri tíma, samþykki aukinn meiri hluti innan veiðifélags slíkt að fenginni heimild Landbúnaðarstofnunar. Reglur um mannvirkjagerð í veiðivötnum eru hertar og gert ráð fyrir því að öll mannvirkjagerð eða rask við veiðivatn, sem áhrif getur haft á fiskgengd, skuli háð umsögn starfandi veiðifélags. Þá er tekin upp sérstök bótaregla í frumvarpinu af þessu tilefni.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ákvarðanir félagsfundar eða félagsstjórnar veiðifélags verði kærðar til Landbúnaðarstofnunar sem fellt getur þær úr gildi standi lög til slíks.

Þeim atriðum sem veiðifélögum er gert skylt að taka upp í samþykktir sínar er fjölgað með það að markmiði að gera rekstur og ákvarðanatöku í veiðifélögum skýrari og skilvirkari og tryggja eftir föngum réttaröryggi einstakra félagsmanna sem sæta þurfa skylduaðild.

Gert er ráð fyrir nokkuð breyttri tilhögun atkvæðisréttar á félagsfundum veiðifélags. Meginreglan verður sú að hverri jörð sem taldist lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976, fylgir eitt atkvæði. Sú undantekning er hins vegar gerð að ef lagt er fyrir fund í veiðifélagi að ráðast í framkvæmdir vegna starfsemi félagsins sem hafa fjárútlát í för með sér, sem nema a.m.k. 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, geti hver félagsmaður krafist þess að ákvörðunin ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Þá er heimilað að ákveða í samþykktum veiðifélags að regla þessi um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilvikum sem varða ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélags.

Matsreglum og reglum um ákvörðun skaðabóta samkvæmt VII. kafla frumvarpsins er breytt og skiptir þá mestu máli að allt matsferli er mjög einfaldað og eingöngu gert ráð fyrir einu matsstigi. Matsnefndinni er ætlað að annast í öllum tilvikum það mat sem fram skal fara á grundvelli frumvarpsins verði það að lögum. Mati eða úrskurðum matsnefndar verður ekki skotið til yfirmats en þetta verður að sjálfsögðu borið undir dómstóla með hefðbundnum hætti.

Loks er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir tímabundnu starfi samráðsnefndar um framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt, laga um eldi vatnafiska og laga um varnir gegn fisksjúkdómum, samanber frumvörp þar að lútandi sem lögð eru fram samhliða frumvarpi þessu eins og ég hafði áður getið um.

Þegar gerðar eru jafnróttækar breytingar á lagaumhverfi og hér eru lagðar til, bæði hvað varðar form og efni, er nauðsynlegt að tryggja að lagaframkvæmdin geti gengið sem best fyrir sig, agnúar verði sniðnir af og samþætting tryggð. Því er lagt til í bráðabirgðaákvæði I í frumvarpi þessu að á næstu fimm árum frá gildistöku nýrra lax- og silungsveiðilaga starfi samráðsnefnd um framkvæmd þeirra og annarra þeirra laga er mynda þá umgjörð sem hér er lögð til. Er nefndinni ætlað að vera samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra aðila sem lagaframkvæmdin varðar helst. Ber henni að fylgjast með og stuðla að greiðri lagaframkvæmd og virkum skoðanaskiptum.

Fylgiskjöl með frumvarpi þessu eru í fyrsta lagi reifanir allra þeirra hæstaréttardóma sem gengið hafa á þessu réttarsviði og í öðru lagi skýrsla Hagfræðistofnunar og Veiðimálastofnunar. Frumvarp þetta ásamt fylgifrumvörpum var samið í góðu samstarfi við helstu hagsmunaaðila á sviði veiðimála, einkum Landssamband veiðifélaga og Landssamband fiskeldisstöðva. Frumvarpið var kynnt á vefslóð landbúnaðarráðuneytisins og almenningi þar gefinn kostur á að koma fram með athugasemdir, sem var og er nokkur nýjung við samningu á slíkum flóknum frumvörpum. Athugasemdir komu fram og margar þeirra voru teknar til greina þannig að almenningur fékk aðgang að þessum miklu frumvörpum á þeim tíma sem verið var að ganga frá þeim til ríkisstjórnar og Alþingis.

Ég vil að öðru leyti, hæstv. forseti, vísa til mjög ítarlegrar greinargerðar með frumvarpinu og athugasemda með því.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.