132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:09]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að umræðan um þetta ágæta frumvarp muni að einhverju leyti snúast um frekari hömlur á laxveiðar í net. Um það er ég ekki í neinum vafa. Auðvitað er þetta viðkvæmt og flókið mál þar sem komið er inn á skaðabótaskyldu hins opinbera, eignarrétt bænda o.s.frv. en það er mál sem er hægt að leysa. Það er mál sem verður að leysa af því að stangveiði á ákveðnum svæðum er haldið í heljargreipum og er haldið niðri vegna netaveiðanna sem sópa upp nánast verðlausum laxi ef miðað er við þau gífurlegu verðmæti sem felast í laxveiðum á stöng. Þarna er um að ræða feikilega hagsmuni fyrir byggðirnar allar og Ísland allt. Það verður að koma til ítarleg skoðun á þessum málum þannig að þegar þetta mál kemur aftur úr nefnd sé hægt að leggja það til að settar verði verulegar hömlur á laxveiði í net.