132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:12]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri endurskoðun sem hefur átt sér stað varðandi lög um lax- og silungsveiði í þeirri von að þau leiði af sér betra og skýrara lagaumhverfi fyrir þá sem þurfa að starfa innan þess. Í máli ráðherra kom ekki fram að við undirbúning þessa frumvarps hefði verið haft samráð við einn mikilvægasta hagsmunahópinn í dag, þ.e. stangveiðimenn, og í ljósi 1. gr. varðandi hagkvæmni hefði ég talið að það væri mjög eðlilegur hlutur. Hér stendur í ályktun frá stjórn Landssambands stangveiðifélaga, með leyfi forseta:

„Stjórnin harmar hins vegar að ekki var talin ástæða í undirbúningi lagasetningar að leita eftir og hafa með sjónarmið hins stóra hóps stangveiðimanna hérlendis.“

Ég velti því fyrir mér, forseti, hvort það hafi ekki verið gert og þá hvers vegna.