132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:15]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú kannski ekkert eðlilegt að ráðherrar hafi frumkvæði í málinu. Ég get auðvitað sagt frá því hér að bæði stangveiðimenn og líka netaveiðimenn hafa komið á minn fund og farið yfir stöðuna. Ég hygg að allir þeir sem eru ábyrgir í þessu geri sér grein fyrir að þetta er samningamál.

Ég hef aldrei skorast undan að fara yfir þessi mál með þeim og mitt ráðuneyti. Eina leiðin sem við höfum átt í því er kannski Fiskræktarsjóður sem hefur getað komið að málinu og gert í ákveðnum tilfellum tímabundið. En fyrst og fremst eru þetta samningar um auðlind vatnasvæðis og þeir samningar hafa í mörgum tilfellum tekist mjög vel á milli netaveiðibænda og stangveiðibænda og hagsmunir stangveiðinnar eru í dag miklu ríkari og sterkari en þeir voru fyrir 10 eða 15 árum.

Þannig að ég hygg að þetta (Forseti hringir.) muni nú gerast á þeim fáu stöðum þar sem enn er veitt í net.