132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:21]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur hér mælt fyrir nýju frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Í raun og veru er hér um að ræða fimm frumvörp og það verður mælt fyrir fjórum hinum síðari seinna í dag vænti ég.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að jafnt og þétt hafi verið unnið að þessu verki frá áramótum 2004–2005 og markmiðið hafi verið að leggja fram þessa lagabálka við upphaf haustþings 2005. Nú er 20. mars runninn upp þegar loksins er mælt fyrir þessu frumvarpi og þessum frumvörpum öllum. Þeim var ekki dreift hér í þinginu fyrr en í síðustu viku. Það er liðið hálft ár og gott betur frá upphaflegu markmiði, sem var að leggja fram þessi frumvörp hér á haustþinginu.

Mig langaði því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta hefur dregist svona lengi? Ber ráðherra virkilega þá von í brjósti að það takist að afgreiða öll þessi frumvörp sem lög frá hinu háa Alþingi fyrir vorið?